„Fyrir það fyrsta eru allir velkomnir í Pírata sem telja sig eiga samleið með grunnstefnu flokksins. Hvort sem þeir skilgreina sig sem frjálshyggjumenn eða eitthvað annað og óháð því hvort þeir voru áður í einhverjum öðrum stjórnmálaflokkum. Það eru auðvitað skiptar skoðanir um ýmis mál innan Pírata eins og í öðrum flokkum og þar má finna ýmsa hópa.“
Þetta segir Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, í samtali við mbl.is í tilefni af þeim ummælum Birgittu Jónsdóttur samþingmanns hans að hún ætli að bjóða sig fram fyrir flokkinn í þingkosningunum á næsta ári til þess að koma í veg fyrir að frjálshyggjumenn taki hann yfir. Hefur hún hvatt frjálshyggjumenn til þess að stofna frekar eigin flokk.
Frétt mbl.is: Vill frjálshyggjumenn úr Pírötum
„Ég veit satt að segja ekki hvaða ástæður eru fyrir þessum áhyggjum. Ég veit ekki til þess að frjálshyggjumenn hafi áform um að taka Pírata yfir og ég átta mig heldur ekki á því hvernig þeir ættu að geta það með öðrum hætti en að hafa áhrif á stefnumál flokksins í samræmi við grunnstefnu hans,“ segir Helgi Hrafn. Hann deili þannig ekki áhyggjum Birgittu.