Engar kynjamerkingar á klósettinu

Að sögn Sigurbjargar eru nemendur í skólanum sem eru trans …
Að sögn Sigurbjargar eru nemendur í skólanum sem eru trans eða flæðigerva. Hún segir það ekki skólans að þvinga þá eða aðra í kynjakassa.

Skólastjórnendur í Akurskóla í Reykjanesbæ hafa látið fjarlægja kynjamerkingar af salernum skólans. Nemendum er þannig frjálst að velja hvaða salerni þeir nota en Sigurbjörg Róbertsdóttir skólastjóri segir það ekki hlutverk skólans að þvinga nemendur í fyrirfram skilgreinda kynjakassa.

Það var Gay Iceland sem sagði fyrst frá málinu og tók viðtal við Sigurbjörgu, sem sagði m.a. að þar sem ekki væri um að ræða „klefasalerni“ heldur salerni líkt og finna mætti á heimilum væri engin þörf á því að merkja þau ákveðnu kyni.

Skólinn hefur einnig breytt þeim leiðbeiningum sem foreldrar skólabarna fá varðandi skólasund, á þá leið að í stað þess að taka fram hvers konar sundfatnaði hvort kyn á að klæðast, þá sé einfaldlega tiltekið að börnin klæðist fatnaði til sundiðkunar.

„Við sjáum ekkert athugavert við það að stúlkur klæðist sundbuxum í sundlauginni ef þær vilja, eða að strákar klæðist sundbol. Börnin geta einfaldlega valið hvoru þau vilja klæðast,“ hefur Gay Iceland eftir Sigurbjörgu.

Hún segir viðbrögð foreldra hafa verið jákvæð og að börnin velti því lítið fyrir sér hvaða salerni þau nota. Þá var hver einasti bekkur heimsóttur af Samtökunum '78 og fræddur um fordóma, og fræðsla af þessum toga verði árlegur þáttur í skólastarfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka