Bjóða aftur flagaraþjálfun á Íslandi

Úr myndbandi tælitæknisins Osvaldo Peña Garcia sem sækir Ísland heim …
Úr myndbandi tælitæknisins Osvaldo Peña Garcia sem sækir Ísland heim í maí. Skjáskot af YouTube

Eftir að hafa fengið á sig stimpilinn „Hataðasti maður í heimi“ árið 2014 hafði flagaraþjálfarinn Julian Blanc hægt um sig á alþjóðavettvangi. Nú, rúmu ári síðar er Real Social Dynamics, fyrirtækið sem hann starfar fyrir, aftur komið á fulla ferð og ætlar sér aftur að halda námskeið í tælitækni um allan heim, m.a. á Íslandi.

RDS komst í heimsfréttirnar árið 2014 þegar áströlsk yfirvöld drógu vegabréfsáritun Blanc til baka vegna námskeiða hans í landinu þar sem hann kenndi körlum hvernig taka eigi konur á löpp, oft með blekkingum og jafnvel andlegu og líkamlegu ofbeldi.

Sama ár hugðist Blanc halda þriggja daga flagaranámskeið í Reykjavík en hætt var við námskeiðin, á Íslandi og víðar, eftir hörð viðbrögð almennings. Blanc var meinuð  vegabréfsáritun til fjölda landa og hér á landi söfnuðust 11 þúsund undirskriftir á íslensku síðuna „Stoppum Julien Blanc“.

Kyrkir konur um allan heim

Aðferðir Blanc, sem kenndar eru af öllum þjálfurum Real Social Dynamics, eru vægast sagt vafasamar og hefur hann verið harðlega gagnrýndur fyrir að hvetja til ofbeldis gegn konum. Hann varð meðal annars þekktur fyrir að taka myndir af sér að kyrkja konur og merkja þær með myllumerkinu #ChokingGirlsAroundTheWorld. Í myndbandi sem nú hefur verið lokað fyrir almenningi kenndi hann nemendum sínum að það að öskra „Pikachu!“ og þrýsta andliti konu að klofinu á sér sé viðeigandi aðferð til að nálgast japanskar konur.

Á heimasíðu fyrirtækisins er hægt að skrá sig á námskeið í öllum löndum á Norðurlöndunum nema í Noregi og raunar virðist fyrirtækið bjóða upp á námskeið um allan heim. Námskeiðið sem haldið verður á Íslandi er þriggja daga námskeið, eins og fyrirhugað var árið 2014, og mun fara fram helgina 6. til 8. maí 2016.

Til þess að skrá sig á námskeiðið þarf að greiða tryggingu upp á 500 Bandaríkjadali en heildarverð námskeiðsins er 2.000 dalir eða um 260 þúsund krónur. Það er hinsvegar ekki Blanc sem mun kenna námskeiðið heldur Osvaldo Peña Garcia, sem gengur jafnan undir nafninu „Ozzie“.

Að plægja í gegnum mótstöðuna

Garcia er höfundur bókarinnar „The Physical Game“ sem ber undirtitilinn „Heildarleiðbeiningar tælitæknis um hvernig á að nálgast, líkamlega leiða og sænga hjá konum.“

Á heimasíðu bókarinnar talar Garcia um að menn eigi að nota líkamlega yfirburði sína til að nálgast konur. Þá eigi hann ekki við um ofbeldi heldur að þeir séu fastir fyrir og taki stjórnina í því að gera samskipti við konur líkamleg.

„Það þýðir að þú verður að sjá fyrir mótstöðu af þeirra hálfu og vera tilbúinn að plægja í gegnum hana.“

Segir hann bókina leiða lesendur í gegnum öll skrefin við að hitta stúlku og fara með henni heim sama kvöldið.

„Svo, munu konur leyfa gaur að ganga upp að þeim og vera líkamlegur án þess að svara fyrir sig með einhverskonar mótstöðu? Óttinn við höfnun getur virkað letjandi á marga þegar þeir byrja að fara líkamlegu leiðina,“ skrifar Garcia. „Hvað ef ég segði ykkur að konur munu taka því og fíla það? (...) Staðreyndin er sú að konur eru að bíða eftir að þú reynir við þær líkamlega.“

Hann segir undantekningar sanna regluna. Hann hafi séð nemendur sína reyna brjálæðislega líkamlega hluti við konur á skemmtistöðum og að þær hreinlega elski það og vilji meira.

„RSD hefur verið til lengur en nokkurt annað fyrirtæki sem reynir að kenna þér á konur og við erum óendanlega mikið meira ítarlegri og gíraðir til að eiga við hvers konar nemendur eða aðstæður þar sem við höfum unnið með svo breiðum hópi fólks. Við erum alræmdir fyrir að gera hvað sem þarf til að ná árangri fyrir okkur sjálfa og fólkið sem lærir hjá okkur.“

Reðuröfund kvenna

Þetta verður ekki í fyrsta skipti sem Garcia heimsækir Ísland. Í myndbandi sem er frá árinu 2012 og ber yfirskriftina „Ráðleggingar til að komast hjá því að sækjast eftir viðurkenningu kvenna og snúa því við á þær,“ heimsækir hann m.a. Reðursafnið í Reykjavík og mætir, íklæddur íslenskri lopapeysu, á skemmtistaðinn B5 þar sem hann daðrar og dansar við konu. Meðal þess sem Garcia leggur til er að upprennandi flagarar hætti að reyna að vera „góði gæinn“ og hætti að hrósa konum.

„Konur geta verið „passive-agressive“ tíkur. Þær geta ekki tjáð reiði sína gegn þjóðfélaginu fyrir að gera þær að „veikara“ kyninu svo þær öfunda karlmenn og hefna sín á þeim. Eg held að Freud hafi kallað það reðuröfund,“ skrifar Garcia við myndbandið á bloggsíðu sinni.

Ekki er ólíklegt að koma Garcia til landsins muni mæta nokkurri mótstöðu, alveg eins og raunin var árið 2014. 

Sagan hefur í það minnsta endurtekið sig í Ástralíu þar sem vegabréfsáritun útsendara Real Social Dynamics var afturkölluð nú í janúar eftir að hann hafði haldið nokkur námskeið í leyni. Þar var á ferð Jeffy 'jlaix' Allen sem Dailymail segir kenna körlum að kyrkja konur, kalla þær ljótum nöfnum og kalli sendiferðabílinn sinn „nauðgunarbílinn.“ 

Julien Blanc í viðtali á CNN.
Julien Blanc í viðtali á CNN. Skjáskot af vef CNN
RSD hefur verið gagnrýnt fyrir að hvetja til kynferðisofbeldis.
RSD hefur verið gagnrýnt fyrir að hvetja til kynferðisofbeldis.
Osvaldo Peña Garcia í Kringlunni í síðustu heimsókn sinni.
Osvaldo Peña Garcia í Kringlunni í síðustu heimsókn sinni. Skjáskot af youTube
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert