Fleiri njóti en verslunarfyrirtæki

Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri samtakanna, og Erna …
Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri samtakanna, og Erna Bjarnadóttir hagfræðingur á fundinum í morgun. Ljósmynd/Bændasamtökin

Lækkun virðisaukaskatts og afnám vörugjalda hefur ekki skilað sér að fullu til neytenda í lækkun verðlags og það sama á við um afnám sykurskattsins sem og hagstæða gengisþróun. Þetta kemur fram í skýrslu sem Bændasamtökin kynntu á fundi í morgun. Bent er á í því sambandi að á árinu 2014 hafi innflutningur á nautakjöti margfaldast, magntollar lækkað um 2/3 og heimsmarkaðsverð lækkað. Engu að síður hafi verð á nautahakki hækkað um 15% hér á landi.

„Eftir því sem samkeppni á matvörumarkaði er meiri, bæði í vinnslu, dreifingu og smásölu, því lægra verði má búast við til neytenda. Innan Evrópu er mest samkeppni í smásölu á matvöru í Þýskalandi og þar er framlegð í matvöruverslun sú lægsta í Evrópu. Á sama tíma eru skýr merki um fákeppni á matvörumarkaði á Íslandi þar sem er arðsemi eigin fjár stærstu fyrirtækjanna er 35–40% samanborið við 11-13% í Bandaríkjunum og Evrópu,“ segir ennfremur í skýrslunni.

Vaxandi áhersla neytenda á góðan aðbúnað og velferð húsdýra skapar sóknarfæri fyrir íslenskan
landbúnað segir áfram. „Íslenskir bændur geta skapað sér samkeppnisforskot með því að tryggja að þær kröfur sem settar eru fram í nýrri löggjöf á þessu sviði séu uppfylltar. Nú þegar er Ísland fremst í flokki í Evrópu, ásamt Noregi, þegar kemur að lítilli notkun sýklalyfja í landbúnaði. Á móti hefur þetta áhrif á kostnað bænda sem þýðir að þeir þurfa hærra verð fyrir sína vöru. Því er mikilvægt að allar búvörur séu merktar svo neytendur viti hvaða vörur séu til fyrirmyndar í þessum efnum.“

Opinber stuðningur við landbúnaðinn farið lækkandi

Ennfremur er bent á að opinber fjárframlög til landsbúnaðarmála hafi lækkað verulega síðustu áratugi sem hlutfall af landsframleiðslu. Þannig hafi opinber stuðningur við landsbúnaðinn verið 5% af vergri landsframleiðslu árið 1990 en 1,1% árið 2013. Meðaltalið hjá Evrópusambandinu hafi þá verið 0,8%. Umtalsverður árangur hafi náðst á síðustu tíu árum í að hagræða í íslenskum landbúnaði. Þá hafi íslenskir bændur tekið á sig aukinn kostnað vegna gengisfalls krónunnar í kjölfar fjármálahrunsins með því að halda aftur af hækkun afurðaverðs.

„Þegar horft er til allra þeirra þátta sem geta haft áhrif á verðlag matvöru til neytenda á Íslandi er ljóst að hægt er að ná betri árangri við að ná niður verðlagi. Á matvörumarkaðnum þurfa allir að fá sinn réttláta hluta af kökunni, neytendur, bændur og verslunin. Eins og staðan er núna tekur verslunin of stóran hluta til sín á kostnað neytenda og bænda og úr því þarf að bæta,“ segir sömuleiðis. Tryggja þurfi aukna samkeppni á dagvörumarkaði, ágóðinn skili sér til neytenda þegar gjöld og álögur séu lækkaðar og að árangur í hagræðingu í landbúnaði skili sér til neytenda og bænda en ekki aðeins fyrirtækja í verslunarrekstri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert