MMR kannaði viðhorf Íslendinga til þess að ríkið greiði listamannalaun. Af þeim sem tóku afstöðu voru 53,2% sem sögðust fylgjandi því að ríkið greiði út listamannalaun en 46,8% sögðust andvíg því að ríkið greiddi listamannalaun. Hlutfall þeirra sem eru fylgjandi því að ríkið greiði listamannalaun hefur aukist um yfir 7% frá febrúar 2013 og yfir 14% frá mars 2010. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá MMR.
Framsóknarmenn og Sjálfstæðismenn andvígir listamannalaunum
Viðhorf til listamannalauna eru mjög breytileg eftir stuðningi við stjórnmálaflokka. Sem dæmi eru 77% þeirra sem styðja Framsókn og 68% þeirra sem styðja Sjálfstæðisflokkinn andvíg listamannalaunum, en á hinn bóginn eru 80% þeirra sem styðja Samfylkinguna eða Vinstri græna fylgjandi því að ríkið greiði út listamannalaun.
Þegar afstaða lýðfræðilegra hópa er borin saman kemur í ljós að fólk sem er yngra en þrjátíu ára og er búsett á höfuðborgarsvæðinu er líklegra til að vera fylgjandi listamannalaunum. Þar að auki eru heimili með milljón eða meira í mánaðartekjur líklegri til að vera fylgjandi listamannalaunum en tekjulægri hópar.