Finnur Árnason, forstjóri Haga, segir að Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, svífist einskis til að koma höggi á sinn stærsta viðskiptavin. Hann segir málflutning hans um að verslunin í landinu taki of stóran hluta af kökunni til sín á kostnað neytenda og bænda, koma sér á óvart. Bændasamtökin kynntu skýrslu þess efnis í morgun.
„Þessi málflutningur kemur mér á óvart. Við birtum okkar álagningu fjórum sinnum á ári og það liggja fyrir staðreyndir um að hún hefur verið frekar að lækka undanfarin ár og hún hefur verið mjög stöðug,“ segir Finnur.
„Við höfum skilað öllum skattalækkunum og gengisstyrkingu til okkar viðskiptavina og það liggur fyrir. Það liggur líka fyrir að landbúnaðarvörur eru seldar hjá okkur á algjörri lágmarksálagningu," bætir hann við.
Frétt mbl.is: Fleiri njóti en verslunarfyrirtæki
„Í mínum huga er alveg ljóst að bændur og verslunin eru ekki að hagnast of mikið á þessu kerfi sem hann er talsmaður fyrir. Það eru einhverjir aðrir. Ég minni á að verslunin hefur í gegnum tíðina bætt hag neytenda stórkostlega. Bónus selur vörur á lægsta verði og það er sama verð um land allt á lágmarksálagningu. Það er með ólíkindum að þetta séu kveðjurnar frá formanni Bændasamtakanna.“
Í skýrslu Bændasamtakanna kemur fram að á árinu 2014 hafi flutningur margfaldast á nautakjöti, magntollar hafi lækkað um 2/3 og verð á heimsmarkaði lækkað. Þrátt fyrir það hafi verð á nautahakki hækkað um 15% hér á landi.
Finnur vísar þessu til föðurhúsanna. „Í tilkynningunni er sagt að það hafi verið aukinn innflutningur og lækkaðir tollar á nautakjöti. Á hinn bóginn er sagt að samkvæmt verðkönnun ASÍ hafi nautahakk hækkað um 15%. Á þessu tímabili var aukin mjólkurframleiðsla og skortur á innlendu nautakjöti. Af því var flutt inn meira,“ segir hann.
Finnur bætir við að innkaupsverð á nautakjöti frá bændum og afurðastöðvum hafi hækkað um tæp 28% frá árinu 2012. Ástæðan er sú að það hafi verið skortur á því og afurðastöðvar hafi hækkað verðið til þeirra. „Framsetningin á þessu máli varðandi nautakjötið er svívirðileg gagnvart versluninni og dæmi um að formaður Bændasamtakanna svífst einskis til þess að koma höggi á sinn stærsta viðskiptavin.“