Mögulegt er að lækka matvöruverð á Íslandi, samkvæmt úttekt Bændasamtaka Íslands á þáttum sem hafa áhrif á matarverð. Til þess þurfi að grípa til tiltekinna ráðstafana sem aðallega snúa að versluninni í landinu.
Meðal annars þurfi að tryggja virka samkeppni á dagvörumarkaði og tryggja að hagræðing í búrekstri skili sér til neytenda. Telur bændaforystan að verslunarfyrirtæki taki of stóran hluta til sín á kostnað neytenda og bænda.
Finnur Árnason, forstjóri Haga, er á öðru máli og segir m.a. í frétaskýringu um þetta mál í Morgunblaðinu í dag, að landbúnaðarvörur séu seldar á lágmarksverði og álagning hafi almennt farið lækkandi.