„I agree“ er stærsta lygin í samfélagi nútímans. Þetta kom fram í máli Helga Hrafns Gunnarssonar þingmanns Pírata á málþingi Persónuverndar í dag. Vísar hann þar til skilmála sem notendur tölvutækninnar þurfa oft og tíðum að samþykkja til að njóta ýmissar þjónustu.
„Þó að um sé að ræða upplýst samþykki, og þó að notandinn hafi að vissu leyti val, þá stendur valið í auknum mæli á milli þess að veita persónuupplýsingar eða vera hreinlega ekki með. Persónuupplýsingar eru einfaldlega orðnar svo nauðsynlegar til að taka þátt í öllum hlutum nú til dags, hvort sem það er Facebook, örorkubætur eða hvaðeina. Það er bara þessi yfirþyrmandi krafa í samfélaginu um persónuupplýsingar, hvert sem þú lítur.“
Helgi segir að aldrei áður hefði verið mikilvægara að huga að huga að málaflokki persónuverndar. Því valdi upplýsingabyltingin. Í umræðunni gleymdist gjarnan einn þáttur í jöfnunni að mati Helga.
„Það er almenningur. Þar vandast málið, kannski sem betur fer, því enginn hefur jú stjórn á almenningi. En rót vandans er að persónuupplýsingar eru óheyrilega gagnlegar fyrir í raun alla, fyrirtæki, stofnanir, stjórnmálasamtök og einstaklinga.“
Þá glími samfélagið nú við gamlar jafnt sem nýjar áskoranir.
„Gömlu áskoranirnar felast í meðferð lögreglu- og heilbrigðisupplýsinga, sem alltaf hefur fylgt viss hætta en hafa hingað til ekki haft færi á því að fara jafn mikið á kreik og nú er mögulegt.
Nýjar áskoranir felast svo í til dæmis hrelliklámi, sem er sístækkandi vandamál. Þá geta leitarvélar nú fundið alla, ekki bara fræga fólkið eins og áður. Þetta nota vinnuveitendur og löggjöfin er mismunandi hvað það varðar. En auðvitað er ekki hægt að refsa yfirmönnum fyrir að fara á Facebook.“
Helgi lauk máli sínu á því að ákveðin vitundarvakning þyrfti að verða á meðal almennings um varðveislu og veitingu persónuupplýsinga.
„Upplýst samþykki og meðalhóf munu ekki bjarga okkur. Og dulkóðun er ekki bara eitthvað galdraduft sem maður spreðar yfir upplýsingar svo þær hverfi. Við kunnum að læsa dyrunum og erum vön því. Við þurfum að læra að tileinka okkur sama hugsunarhátt hvað varðar persónuupplýsingar.“
Persónuvernd, í samvinnu við Mannréttindastofnun Háskóla Íslands, efndi til málþingsins í dag, á evrópska persónuverndardeginum. Yfirskrift málþingsins var „Vinnsla persónuupplýsinga hjá fyrirtækjum og stofnunum“.
Frétt mbl.is: Er íslenskt starfsfólk þjófóttara?
Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytisins opnaði málþingið og sagði persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga vera brýnt viðfangsefni í nútímasamfélagi. Mikilvægt væri að meginreglur persónuverndar gildi óháð því hvaða tækni sé notuð á hverjum tíma.
Íslensk löggjöf um persónuvernd byggi að mestu leyti á tilskipunum Evrópusambandsins á sama tíma og 89 íslensk lög vísa ýmist í persónuverndarsjónarmið eða lögin sjálf.
„Gildandi reglur sæta nú endurskoðun og ljóst er að miklar breytingar verða á löggjöfinni og þeim stofnunum sem sjá um að henni sé framfylgt,“ sagði Ragnhildur og bætti við að ný evrópsk stofnun verði brátt sett á laggirnar til að samræma persónuverndarstofnanir Evrópulanda.