Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra og Ellý Alda Þorsteinsdóttir skrifstofustjóri á Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar undirrituðu í gær samning um tilraunaverkefnið TINNU sem borgin mun annast og hefur að markmiði að styðja einstæða foreldra sem fá fjárhagsaðstoð og börn þeirra. Velferðarráðuneytið veitir 20 milljónir króna til verkefnisins.
Verkefnið og umgjörð þess byggist á niðurstöðum rannsóknarinnar; Jaðarstaða foreldra – velferð barna, sem Rannsóknarstofnun í barna og fjölskylduvernd við Háskóla Íslands vann að beiðni velferðarsviðs borgarinnar. Þar var skoðað hvort atvinnustaða foreldra hafi áhrif á þátttöku barna í íþrótta- og tómstundaiðkun og hvaða hindranir verði á vegi foreldra sem fá fjárhagsaðstoð þegar þau vilja nýta sér þjónustu fyrir börnin sín.
Félags- og húsnæðismálaráðherra hélt á liðnu ári tvo fundi, annars vegar með starfsfólki þjónustumiðstöðvar Breiðholts og hins vegar foreldrum sem fengið hafa fjárhagsaðstoð til að ræða hvar skórinn kreppir og hvaða úrræði og þjónusta myndu koma að sem bestum notum.
Tilraunaverkefnið TINNA felst í því að veita einstæðum foreldrum og börnum þeirra fjölþætta þverfaglega þjónustu ólíkra aðila innan velferðar- og menntakerfis auk virkni og atvinnumiðlunar. Gert er ráð fyrir að að a.m.k. 15-20 einstæðum foreldrum vísað í verkefnið á ári hverju.