Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra hefur svarað Facebook færslu Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra með annarri Facebook færslu. Í færslu Dags gagnrýndi hann ummæli Sigmundar Davíðs sem hann lét einmitt falla á Facebook fyrr í dag.
Umræðuefni þeirra Dags og Sigmunds eru áætlaðar framkvæmdir í nágrenni Menntaskólans í Reykjavík. Hafði Sigmundur lagt áherslu á að ákveðið hús við MR, Casa Christi, væri friðað. Dagur svaraði á Facebook og sagði að ríkið væri framkvæmdaaðilinn „og hefur lagt ríka áherslu á að húsið víki.“
Fyrri frétt mbl.is: Þarf að reka deilur sínar við sjálfan sig
Fyrri frétt mbl.is: „Húsið er friðað“
„Lúðvík XIV á að hafa sagt ,,ríkið það er ég". Nú segir borgarstjórinn í Reykjavík hins vegar ,,ríkið, það er Sigmundur Davíð, og allar stofnanir og nefndir með". Ég á víst að afgreiða öll mál sem koma upp hjá ríkisstofnunum og fagnefndum í samtali við sjálfan mig, að mati borgarstjórans, og hjálpa um leið borginni að taka af skarið um verndun húss sem er þegar friðað,“ skrifaði Sigmundur á Facebook fyrr í kvöld.
Bætir hann við að það sé rangt hjá Degi að Minjastofnun hafi heimilað niðurrif hússins sem um ræðir. „Þvert á móti ítrekaði hún við byggingarnefnd MR, fyrir um viku síðan, að húsið væri friðað.“