Þarf að reka deilur sínar við sjálfan sig

Dagur B. Eggertsson.
Dagur B. Eggertsson. mbl.is/Golli

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri segir það „fyrir löngu orðið vandræðalegt hvað forsætisráðherra er mikið í mun að slæma hendi til borgaryfirvalda þegar uppbygging í miðborginni er annars vegar.“ Þetta kemur fram í Facebook færslu borgarstjóra þar sem hann deilir frétt mbl.is um Facebook færslu forsætisráðherra. Í þeirri færslu tjáir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sig um framkvæmdir í nágrenni við Menntaskólann í Reykjavík.

Fyrri frétt mbl.is: „Húsið er friðað“

„Sjaldan hefur honum þó tekist jafn illa upp og í þessu máli,“ skrifar Dagur. „Nú gerir hann athugasemdir við að borgin hafi leyft ríkinu (honum sjálfum) að gamalt hús víki á reit Menntaskólans í Reykjavík fyrir mikilvægri uppbyggingu í þágu skólans. Þarna hefði verið skynsamlegt fyrir ráðherra að kanna málið áður en hann settist við tölvuna eða hljóp í blöðin. Ríkið er nefnilega framkvæmdaaðilinn og hefur lagt ríka áherslu á að húsið víki.“

Nefnir Dagur jafnframt að  umhverfis- og skipulagsráð borgarinnar hafi hins vegar beinlínis beint því til ríkisins með sérstakri bókun 11. nóvember sl. að húsið verði gert upp í upprunalegri mynd, „en mér að vitandi hefur ríkið ekki fallist á það, heldur viljað halda sínu striki,“ skrifar Dagur. „Og hver ætli sé nú hinn lögformlegi umsagnaraðili sem blessaði gjörninginn og lagði til að húsið yrði fært annað. Það er Minjastofnun, undirstofnun forsætisráðherra sjálfs, í umsögn sinni 8. október sl. Minjastofnun vísar til þess að hún sé bundin af eldri úrskurðum húsafriðunarnefndar ríkisins, sem er rétt. En þó blasir við að forsætisráðherra hefur það algerlega í hendi sér að endurgera friðaða húsið og láta það standa, í takt við tilmæli borgarinnar, enda bæði framkvæmdaaðili og umsagnaraðili í málinu. Hann þarf miklu frekar að reka deilur sínar við sjálfan sig eða önnur ráðuneyti, frekar en borgina í þessu máli.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert