Símaþjófur og tjónvaldar handteknir

mbl.is/Kristinn Freyr Jörundsson

Lögreglan handtók tvo unga menn á öðrum tímanum í nótt sem stungu af eftir umferðaróhapp á Sæbraut við Höfða. Lögreglan segir að maður sem tilkynnti  málið til lögreglu hefði veitt mönnunum eftirför í vesturátt þar til mennirnir ákváðu að yfirgefa bílinn á hlaupum.

Lögreglan handtók mennina skömmu síðar. Þeir eru grunaðir um að hafa ekið bifreið undir áhrifum fíkniefna og aka án réttinda, en þeir höfðu aldrei öðlast ökuréttindi. Mennirnir voru vistaðir í fangageymslu. 

Rúmlega ellefu í gærkvöldi hafði umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu afskipti af ökumanni bifreiðar sem hafði ekið yfir gatnamót á móti rauðu ljósi og stöðvað í snjóskafli.  Ökumaðurinn, sem var ung kona, er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og var án ökuréttinda.

Þá var maður handtekinn á þriðja tímanum í nótt við veitingahús í miðborg Reykjavíkur grunaður um þjófnað á farsímum.  Maðurinn vistaður í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn máls.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert