Karlmaður á fimmtugsaldri hefur verið ákærður fyrir meiriháttar skatta- og bókhaldsbrot með því að hafa, sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður fyrirtækisins Arnarhlíðar, komist undan því að standa skil á virðisaukaskatti og vantalið rekstrartekjur fyrirtækisins. Meint brot ná yfir árin 2008-2010, en samkvæmt ákæru nema þau 13,86 milljónum.
Í ákæru embættis sérstaks saksóknara er farið fram á að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu á öllum sakarkostnaði. Er málið tekið fyrir í Héraðsdómi Vestfjarða seinna í mánuðinum. Arnarhlíð var úrskurðað gjaldþrota á síðasta ári og er nú í slitameðferð.
Samkvæmt ákærunni var heildarupphæð virðisaukaskatts sem ekki var talinn fram 5,7 milljónum. Þá voru rekstrartekjur vanframtaldar um 137 milljónir, en með því var vanframtalinn tekjustofn upp á 55 milljónir. Samkvæmt því kom maðurinn fyrirtækinu undan því að greiða 8,14 milljónir í tekjuskatt.