Ung vinstri græn fordæma það sem þau kalla ógeðslegar aðgerðir danskra stjórnvalda gegn flóttafólki. Segja þau það mikil vonbrigði að land, sem hafi að mörgu leyti verið í fararbroddi þróunar í lýðræðis- og mannréttindamálum, skuli beita þessum „fasísku aðferðum“, sem minni á framferði nasista.
„Nýverið var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta á danska þinginu að heimila yfirvöldum að beita flóttafólk sem leitar hælis í Danmörku eignanámi og torvelda þeim að sameinast fjölskyldum sínum á ný. Samkvæmt lögunum er hægt að gera eignir flóttafólks upptækar fari samanlagt virði þeirra yfir um 190.000 kr. krónur og biðtími tími þess að hælisleitendur geti sameinast fjölskyldum sínum lengdur úr einu ári í þrjú,“ segir í tilkynningu frá Ungum vinstri grænum.
„Ofan á þetta var fjárhagsstuðningur við flóttamenn lækkaður og dvalarleyfi stytt. Það eru mikil vonbrigði að land sem hefur að mörgu leyti verið í fararbroddi þróunar í lýðræðis- og mannréttindamálum skuli beita þessum fasísku aðferðum sem minna á framferði nasista laust fyrir miðja síðustu öld.
Það er einlæg von UVG að dönsk yfirvöld sjái að sér, dragi lögin til baka og biðjist afsökunar á framferði sínu. Sérstaklega átakanlegt er að Jafnaðarmenn taki þátt í þessari aðför að mannréttindum þeirra sem minnst mega sín. Þá hvetja UVG íslensk stjórnvöld til að endurskoða útlendingalögin í heild sinni og samfélagið allt til að taka á móti fleira flóttafólki með opnum faðmi.“