Fiskað í gruggugu vatni

Bjarni benediktsson.
Bjarni benediktsson. mbl.is/Kristinn

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra sagði að sér þætti sem sumir alþingismenn væru að fiska í gruggugu vatni í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.

Tilefnið var fyrirspurn Katrínar Jakobsdóttur sem sagðist ekki telja æskilegt að selja hluta ríkisins í Landsbankanum. Hún vildi skoða aðra hugsun og að hún tæki undir hugmyndir Frosta Sigurgeirssonar um samfélagsbanka.

Spurði Katrín hvort Bjarni teldi það vænlegt til að fá sem best verð fyrir hlutinn úr bankanum að tímarammi sölunnar hefði verið markaður og hvort það að selja hlut í arion banka á sama tíma myndi rýra verðgildi hlutarins.

„Ég sé ríkið ekki fyrirmér sem aðaleiganda fjármálakerfisins á Íslandi til lengri tíma,“ sagði Bjarni í svari sínu og sagði hann það hvort ríkið eigi að vera í bankastarfsemi vera „prinsippspurningu“.

„Mér finnst sumir,“ sagði Bjarni og skaut inn í að það ætti ekki endilega við um Katrínu „... vera að fiska í gruggugu vatni

Sagði hann að eins og sakir standa hafi ríkisstjórnin ekkert annað á prjónunum en það sem sem hún fékk í arf frá fyrri ríkisstjórn sem hafi sjálf haft í hyggju að selja hluta ríkisins í bönkunum.

„Að sjálfsögðu mun ríkisstjórnin ekki beita sér fyrir sölu á markaðshlutnum fyrr en aðstæður eru réttar,“ sagði Bjarni en bætti við að í grunninn væri ríkisstjórnin þeirrar skoðunar að losa ætti hlutinn.

Best fjármagnaði banki Evrópu

Í svari sínu sagðist Katrín ekki vita hverjir „sumir“ væru en að þörf væri fyrir breytta hugsun í fjármálakerfinu og að Ísland hefi rými fyrir slíkar breytingar. Spurði hún hvort ráðherra hyggðist leggja tillögu um sölu hluta ríkisins fyrir þingið þegar þar að kæmi.

Bjarni svaraði því til að lögum samkvæmt bæri honum að kynna tillögur um sölu fyrir þinginu. Hvað breytt umhverfi varðaði þætti honum sem svo að margir hefðu ekki kynnt sér nógu vel hversu mikið umhverfi bankanna hafi breyst nú þegar. Sagði hann Landsbankann líklega einn best fjármagnaða banka Evrópu og að það eitt og sér muni gjörbreyta allri áhættuhegðun bankans

„Það er rangt sem sagt er að allt sé eins og áður var.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert