Fleiri kaupa sína fyrstu eign

Hlutfall þeirra sem eru að kaupa fyrstu eign sína hefur …
Hlutfall þeirra sem eru að kaupa fyrstu eign sína hefur fjölgað mikið frá hruni.

Fólk sem er að kaupa sínu fyrstu íbúð hefur frá árinu 2010 farið hægt og rólega fjölgandi sem hlutfall af öllum kaupsamningum sem gerðir eru á höfuðborgarsvæðinu. Á síðasta ári voru allir ársfjórðungar yfir 20%, en það er í fyrsta skiptið sem slíkt gerist frá því eftir hrunið 2008. Þetta má sjá í tölum Þjóðskrár. Hagfræðingur hjá ASÍ segir þetta afleiðingu af batnandi fjárhagsstöðu heimila í landinu.

Sama þróunin á sér stað um allt land, þó hlutfallið sé nokkuð mismunandi eftir landshlutum. Þannig var hlutfall fyrstu kaupa um og yfir 30% á Austfjörðum allt árið, en á Norðurlandi eystra var meðaltalið 19%.

Mynd/mbl.is

Fyrstu kaup á fasteignum hrundu eftir 2008

Tölur Þjóðskrár ná aftur til ársins 2008 og er byrjað að greina hlutfall fyrstu kaupa á þriðja ársfjórðungi ársins. Þá er hlutfall fyrstu kaupa 23% á höfuðborgarsvæðinu. Strax á næsta ársfjórðungi hrundi þetta hlutfall niður í 9% og fór lægst niður í 6% á seinni hluta ársins 2009. Árið 2010 var um og undir 10%, en árið 2012 fór það að rísa talsvert og var hlutfall fyrstu kaupa 18% á þriðja ársfjórðungi það ár.

Árið 2013 fór hlutfallið einu sinni upp í 20% en var þess fyrir utan í 16-18%. Á síðasta ári hélst það aftur á móti alltaf yfir 20% og fór hæst í 22% á þriðja ársfjórðungi þegar 430 af 1993 kaupsamningum voru vegna fyrstu kaupa.

Gefur til kynna bætta stöðu heimilanna

Róbert Farestveit, hagfræðingur hjá ASÍ segir ljóst að þróunin sé upp á við í þessu sambandi og það sé í samræmi við hagspár sambandsins undanfarið. Segir hann aðstæður á eftirspurnarhliðinni vera að batna og tölurnar gefi til kynna bætta fjárhagsstöðu heimilanna.

Róbert Farestveit, hagfræðingur hjá ASÍ.
Róbert Farestveit, hagfræðingur hjá ASÍ. Mynd/ASÍ

Bendir hann á að þarna komi einnig fram færsla af leigumarkaði yfir í að eiga húsnæði sjálfur. „Það fer að verða hagstæðara að skipta í eigið húsnæði,“ segir hann. Róbert tekur þó fram að þó hlutfallið fari hækkandi sé hætta á að ákveðinn hópur verði útundan og fastur á leigumarkaði. Segir hann byrði húsnæðiskostnaðar mikla og að margir nái ekki að safna sér nægum sparnaði til að komast af leigumarkaðinum.

Segir Róbert að út frá tölum Þjóðskrár einum og sér sé ekki hægt að draga ályktun um hvort fjöldi þeirra sem ekki náðu að kaupa sér eigið húsnæði eftir hrun sé að dragast saman eða hvort þetta hlutfall haldi uppsöfnuðum fjölda í stað. Þetta sé þó i takt við batnandi fjárhagsstöðu heimila í landinu.

Skoða má tölur Þjóðskrár nánar hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert