Meirihluti landsmanna er andvígur inngöngu í Evrópusambandið samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem Gallup gerði fyrir samtökin Já Ísland. Þannig vilja 59,1% standa áfram utan sambandsins en 40,9% eru hlynnt inngöngu í það.
Fjallað er um könnunina á Kjarnanum í dag en samkvæmt henni er ekki marktækur munur á afstöðu kvenna og karla. Mestur stuðningur við inngöngu í Evrópusambandið er á meðal þeirra sem eru með meira en eina milljón króna í fjölskyldutekjur á mánuði eða 53% á móti 47%. Meirihluti annarra tekjuhópa er andvígur inngöngu. Meirihluti þeirra sem eru með háskólapróf eru einnig hlynntur inngöngu í sambandið eða 53% á móti 47%.
Þegar kemur að aldri er mest andstaða við inngöngu í Evrópusmabandið á meðal yngsta aldurshópsins, 18-24 ára, og þess elsta, 55 ára og eldri. Í báðum tilfellum eru 65% á móti inngöngu í sambandið en rúmur þriðjungur hlynntur. Mestur stuðningur við inngöngu í Evrópusambandið er í aldurshópnum 35-44 ára eða 52% á móti 48%. Mestur stuðningur er á meðal kjósenda Samfylkingarinnar við inngöngu, eða 90%, en minnstur hjá kjósendum Sjálfstæðisflokksins, eða 10%.
Fleiri eru hins vegar hlynntir því að taka upp viðræður við Evrópusambandið á ný um inngöngu í sambandið eða 45,4% gegn 40,3%. Ef aðeins er miðað við þá sem taka afstöðu með eða á móti eru 52,9% hlynnt því en 47,1% andvíg því.
Skoðananakönnunin var gerð dagana 14. - 25. janúar og var úrtakið 1440 manns. Þar af svöruðu 888 manns og tóku 718 afstöðu til spurningarinnar. Vikmörk eru á bilinu 2,7 til 3,6%.