Tekist var á um fjárveitingar til heimildamyndagerðar í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.
Valgerður Bjarnadóttir innti Gunnar Braga Sveinsson, utanríkisráðherra svara um fjárveitingar ríkisstjórnarinnar annars vegar og utanríkisráðuneytisins hinsvegar til framleiðslu heimildarmyndaþátta um komu flóttafólk til Íslands. Fjárveitingarnar sem um ræðir hljóða upp á sex milljónir króna í heild en framleiðandi myndarinnar er Árni Gunnarsson, fyrrverandi formaður flóttamannaráðs og fyrrum varaþingmaður Framsóknarflokksins.
Valgerður sagði fjárveitingarnar undarlegar því enda þótt verkefnið væri verðugt bæri að gæta jafnræðis við úthlutanir á ríkisfé. Spurði hún utanríkisráðherra því af hvaða fjárlagaliðum peningarnir kæmu.
Gunnar Bragi svaraði því til að fjármagnið væri annarsvegar tekið af ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar og hinsvegar af þróunarsamvinnulið utanríkisráðuneytisins. Sagði hann myndina sem um ræddi ekki aðeins verða mikilvæga heimild heldur jafnframt námsefni fyrir skólabörn.
„Það er mjög mikilvægt að við drögum fram þá vegferð sem flóttamenn fara í þegar við tökum á móti þeim,“ sagði Gunnar Bragi. „Það voru allir sammála um það að þetta væri mjög gott og verðugt verkefni til að sýna þessar aðstæður og það góða fólk sem hingað kemur.
Valgerður sagðist skilja það vel að ríkisstjórnin hefði ráðstöfunarfé að úthluta en að henni þætti fjármögnunin af hálfu utanríkisráðuneytisins undarleg. Sagði hún farið fram hjá öllum jafnræðisreglum, spurði Gunnar Braga hvernig hægt væri að sækja um slíka styrki og bætt svo við „ Og er utanríkisráðherra nú farinn að ákveða námsefni í grunnskólum?“
Gunnar Bragi sagði það alrangt að farið væri fram hjá reglum og að gert væri ráð fyrir að fjármunum væri varið til upplýsingagjafar um þróunarsamvinnu.
„Þetta er akkúrat það. Þarna er verið að dreifa upplýsingum, búa til efni sem nýtist okkur, nýtist Íslendingum og nýtist vonandi alþjóðasamfélaginu líka til að sjá hvernig tekið er á móti flóttamönnum og hvernig líf þeirra mun stökkbreytast til hins betra á Íslandi.