Þröstur Helgason, dagskrárstjóri Rásar 1, segir það ekki óeðlilegt að Mörður Árnason hafi verið fenginn til að lesa Passíusálmana í ár en Mörður er stjórnarmaður í Ríkisútvarpinu ohf. og varaþingmaður Samfylkingarinnar.
„Passíusálmarnir hafa verið lesnir í Ríkisútvarpinu í áratugi og það er allur gangur á því hver hefur verið fenginn til að lesa þá. Mörður er sennilega fróðasti maður landsins um Passíusálmana en hann gaf út stórt og mikið verk um þá í fyrra,“ segir Þröstur og bendir jafnframt á að þá hafi Mörður óskað eftir að lesa sálmana.
„Mér fannst ekki rétt að hann læsi sálmana í fyrra, þ.e. sama ár og bók hans um Passíusálmana kom út. Það var hins vegar ekkert því til fyrirstöðu að hann læsi þá í ár,“ segir Þröstur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.