Þingmaðurinn sem fékk „veikindaforföll“

Kristján L. Möller, 1. varaforseti Alþingis.
Kristján L. Möller, 1. varaforseti Alþingis. Skjáskot af Althingi.is

Kristján L. Möller, fyrsti varaforseti Alþingis minntist Ragnhildar Helgadóttur, fyrrum alþingismanns og ráðherra við upphaf þingfundar í dag.

Kristján fór yfir ævi og störf Ragnhildar og sagði hana á mörgum sviðum hafa verið brautryðjanda í jafnrétti kynjanna í stjórnmálum.

„Ragnhildur Helgadóttir var valin árið 1956 til að skipa sæti ofarlega á lista SjálfstæðiÞingmaðsflokksins í Reykjavík við alþingiskosningarnar í júní það ár, aðeins 26 ára gömul, tveggja barna móðir og þá laganemi. Hún hlaut kosningu og var eina konan sem þá sat á Alþingi. Aðeins fimm konur höfðu tekið sæti á Alþingi fyrir þann tíma og var hún yngst þeirra allra,“ sagði Kristján.

„Hún var fyrst kvenna kosin til forsetastarfa á Alþingi en hún var forseti neðri deildar þingsins 1961–1962 og á ný 1974–1978. Hún varð önnur konan sem settist í ráðherrastól og fyrst til þess að sitja á ráðherrabekk heilt kjörtímabil. Hún varð menntamálaráðherra 1983 og síðan heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 1985–1987. Hún varð fyrst kvenna – og raunar alþingismanna – til þess að fara í fæðingarorlof frá þingstörfum, árið 1960, sem raunar hét þá „veikindaforföll“.”

Ragnhildur Helgadóttir í forsetastóli Neðri deildar Alþingis 1974.
Ragnhildur Helgadóttir í forsetastóli Neðri deildar Alþingis 1974. mbl.is/Ólafur K. Magnússon

Kristján sagði Ragnhildi hafa verið mjög öflugan liðsmanns síns flokks, baráttuglaða, ódeiga í stjórnmálum og stefnufasta með skýra sýn. Henni hafi tekist að knýja í gegn merkilega áfanga í jafnréttisbaráttunni s.s. almennt og launað fæðingarorlof kvenna.

„Ragnhildur Helgadóttir var ljúf í allri framkomu og viðmóti, háttprúð og yfirveguð en gætti jafnframt vel allra formreglna í störfum sínum. Hún hafði ríka kímnigáfu og var jafnan brosmild. Þegar til átaka kom eða henni misbauð gat svipur hennar hins vegar orðið harður,“ sagði Kristján.

„Hún var málefnaleg í umræðum, samviskusöm, dugleg og nákvæm við störf sín hér á þingi, undirbjó sig vel til allra verka. Ragnhildur stóð djúpum rótum í íslenskri menningarhefð, unni landi sínu og náttúru þess, svo og bókmenntum og listum. Hún var vinaföst og hafði ríka réttlætiskennd, mat alla jafnt og var skilningsrík og hjálpsöm þeim sem höllum fæti stóðu. Ragnhildar Helgadóttur verður jafnan minnst sem forustumanns í menningarmálum og jafnréttisbaráttu íslenskra kvenna.”

Að ræðu Kristjáns lokinni stigu þingmenn úr sætum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert