Brú yfir Fossvog í forgangi

Brú yfir Fossvog frá Kársnesi yfir í Vatnsmýri er í forgangi hjá Kópavogsbúum þegar kemur að framkvæmdum að sögn Ármanns Kr. Ólafssonar, bæjarstjóra. Allar líkur séu á að um hana fari strætisvagnar auk hjólreiðafólks og gangandi vegfarenda. Þó sé óljóst hvenær hún geti orðið að veruleika. Hann hafi bæði fundað með Vegagerðinni og Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra um málið.

Þetta sagði Ármann eftir kynningu á tillögum um framtíðarskipulag Kársness í dag. Þóra Kjarval, arkitekt, situr í dómnefndinni og hún segir bæði Reykjavík og Kópavog hafa mikinn hag af tengingunni. Stúdentaíbúðir gætu risið á Kársnesinu sem myndu skapa dýnamík á milli svæðisins og Vatnsmýrarinnar. 

Með því að endurnýja gamalt húsnæði, þétta byggð og hreinsa upp óþarfa hluti á Kársnesi er hugmyndin að efla hverfið og gera það að eftirsóknarverðara svæði. Einn mikilvægasti þátturinn í því er að reisa brúnna. Þessar hugmyndir eru leiðarljós í fjórum tillögum um framtíðarskipulag hverfisins sem voru kynntar í morgun.

Hugmyndasamkeppnin var liður í norrænu verkefni þar sem fimm önnur þéttbýlissvæði á Norðurlöndum voru tekin fyrir en nú tekur við áframhaldandi vinna að skipulagi út frá tillögunum og verður sigurtillagan kynnt í sumar.

mbl.is var á kynningunni í dag og ræddi við Þóru og Ármann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka