„Frjálshyggjumenn eru velkomnir í Pírata, allir eru velkomnir í Pírata hvort sem þeir kalla sig frjálshyggjumenn eða ekki, hvort sem þeir kalla sig femínista eða ekki. Það eina sem þeir þurfa að eiga sameiginlegt er að aðhyllast grunnstefnu Pírata,“ sagði Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Elínu Hirst, þingmanni Sjálfstæðisflokksins.
Frétt mbl.is: Deilir ekki áhyggjum Birgittu
Tilefnið var ummæli Birgittu Jónsdóttur, þingmanns Pírata, á dögunum um að hún ætlaði að bjóða sig áfram fram í næstu þingkosningunum þrátt fyrir að hafa áður verið búin að ákveða að gera það ekki, en fyrir síðustu þingkosningar sagði hún engum hollt að sitja á þingi í meira en tvö kjörtímabil samfellt. Elín spurði Helga Hrafn hvort frjálshyggjumenn væru ekki velkomnir í Pírata. Sagðist hún hafa ætlað að beina fyrirspurninni að Birgittu en hún væri í veikindaleyfi.
Frétt mbl.is: Vill frjálshyggjumenn úr Pírötum
Helgi tók undir það að réttara hefði verið að beina fyrirspurninni að Birgittu. „Það kemur fram í grunnstefnu Pírata að það að hafna einhverjum ummælum, alveg sama frá hverjum þau koma, sem eru einhvers annars efnis, er á skjön við grunnstefnu Pírata,“ sagði hann og vitnaði þvínæst í reglur flokksins þar sem segir: „Í þessu felst að Píratar móti stefnu sína í ljósi gagna og þekkingar sem er aflað óháð því hvort tillaga virðist í fyrstu æskileg eða ekki. Afstaða Pírata til hugmynda er óháð því hverjir fortalsmenn hennar eru.“
„Frá upphafi hafi alltaf verið meðlimir Pírata, alla vega eins lengi og ég hef verið með hreyfingunni, frá því einhvern tímann um sumarið 2012, sem kalla sig frjálshyggjumenn. Það er algjör nýlunda að það komi einhverjum á óvart eða sé til umræðu,“ sagði Helgi Hrafn ennfremur.