Leikskólastjórnendur eru uggandi yfir ákvörðun Reykjavíkurborgar að skera niður fjármagn næstu tvö árin til Skóla- og frístundasviðs. Formaður Félags stjórnenda leikskóla, Ingibjörg Kristleifsdóttir, segir fregnir um niðurskurð hafa verið eins og kalda vatnsgusu á stjórnendur leikskóla.
„Staðan er mjög alvarleg,“ segir Ingibjörg í samtali við mbl.is. „Frá því að kreppan skall á hafa leikskólastjórnendur lagt allt kapp á að rétta hlutina og sýnt mikla samfélagslega ábyrgð þrátt fyrir þrengri kost. Ég held að við finnum ekki lausnarmiðaðra fólk en þennan hóp.“
Félagið sendi frá sér ályktun í gær þar sem fram kom að stjórnendur leikskóla í Reykjavík telji að nú sé komið inn að beini í skerðingu á fjármagni til leikskóla.
Ingibjörg segir að það hafi komið leikskólastjórnendum í Reykjavík í opna skjöldu að niðurskurðurinn verði afturvirkur, en leikskólarnir munu taka með sér halla frá árinu 2015 yfir á árið 2016. „Þetta er sérstaklega erfitt að meðtaka þegar umræðan í þjóðfélaginu er þannig að allt sé á uppleið. Leikskólastjórar eru að skipuleggja starfið og reka leikskóla án þess að vita úr hverju þeir hafa að spila,“ segir Ingibjörg og bætir við að mikil óvissa ríki inni á leikskólunum.
Sérkennslan er afar viðkvæmur þáttur og tal um niðurskurð í þeim málaflokki vekur sterk varnarviðbrögð því að allir vita hversu mikilvæg snemmtæk íhlutun er. Það er augljóst reiknisdæmi að ef ekki er tekið vel á sérkennslumálum í leikskóla þá færist vandinn og eykst á næsta skólastigi. Læsisátök á eldri skólastigum hafa t.d. lítið upp á sig ef ekki hefur verið lagður góður grunnur á yngsta stiginu.
Ingibjörg leggur þó áherslu að leikskólastjórnendum myndu síðast af öllu láta niðurskurðinn bitna á innra starfi með börnunum. „Gæðin í umönnun og námi barnanna gengur alltaf fyrir. En til þess að það sé hægt þá þarf að skera annarsstaðar og þá er það þjónustan við foreldra,“ segir hún og nefnir að það sé t.d. hægt að stytta opnunartíma, lengja sumarfrí og hagræða í eldhúsum leikskólanna.
„Foreldrar þurfa fyrst og fremst að vera vakandi fyrir því að börnin fái það námsumhverfi og umönnun sem þau þarfnast og eiga rétt á, það er aðalmálið. En þjónustustigið hlýtur að lækka og samfélagið og atvinnurekendur verða að vera viðbúnir því,“ segir Ingibjörg.
Hún segir þó enga uppgjöf að finna innan félagsmanna. „Ég stend á hliðarlínunni en ég heyri ennþá að lausnarmiðuð hugsun og vilji til að finna ráð er til staðar. Það er engin uppgjöf þó að mikið sé lagt á herðar leikskólastjórnenda“ Hún segist ekki verða vör við annað en að yfirmenn á Skóla- og frístundasviði séu samtaka leikskólastjórnendum í leit að lausnum.
„En það er ljóst að það verður að skerða þjónustu og vanda hvert einasta skref sem þarf að taka varðandi sérkennsluna.“