Hefur ekki tekist að skapa traust

Árni Páll, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Samfylkingin á Akureyri vill flýta formannskjöri. Ályktun þess efnis var samþykkt á fjölmennum félagsfundi í kvöld en í henni er fylgi flokksins undanfarin misseri sagt óviðunandi.

„Núverandi forystu Samfylkingarinnar hefur ekki tekist að skapa traust kjósenda á flokknum. Til að ná Samfylkingunni upp úr þeirri djúpu lægð sem hún er nú í telur Samfylkingin á Akureyri nauðsynlegt að boðað verði til landsfundar fyrir vorið. Þar gefist forystunni tækifæri til að endurnýja umboð sitt  eða nýr formaður og  forysta verði kjörin.  Það má ekki seinna vera til að nýrri forystu gefist tími til að undirbúa málefni, efla starf flokksins og stuðla að endurnýjun fyrir næstu alþingiskosningar,“ segir í ályktuninni.

Segir að jafnaðarstefnan eigi mikinn stuðning meðal Íslendinga og jafnaðarmenn á Íslandi þurfi að endurvinna traust kjósenda.  Til að svo megi verða sé nauðsynlegt að kjósendur trúi því að Samfylkingin standi vörð um hefðbundin baráttumál jafnaðarmanna.

„Samfylkingin á Akureyri hvetur önnur samfylkingarfélög til að taka undir þessa ályktun.  Í stöðu eins og nú er uppi verða almennir flokksmenn að láta til sín taka þegar forystunni hefur mistekist að halda baráttumálunum á lofti og knýja fram nauðsynlegar þjóðfélagsbreytingar fyrir almenning á Íslandi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert