Stjórnendur í leikskólum Reykjavíkurborgar eru uggandi yfir þeirri ákvörðun borgarinnar að skera næstu tvö árin niður fjármagn til skóla- og frístundasviðs. Nú þegar er boðuð hagræðingarkrafa sviðsins fyrir skólaárið 2016 um 670 milljónir króna.
„Leikskólar eru illa í stakk búnir til að mæta þessum niðurskurði,“ segir Þórunn Gyða Björnsdóttir, leikskólastjóri og aðalmaður í samráðsnefnd Kennarasambands Íslands. „Minna fjármagn til hvers leikskóla þýðir færra fólk, minni þjónusta og minni gæði. Á sama tíma biður samfélagið okkur um meiri þjónustu.“
Alls eru 64 leikskólar í Reykjavík með um 6.000 börn í vistun. Auk þess eru um 1.000 börn í 17 sjálfstætt starfandi leikskólum og um 700 börn dvelja að jafnaði hjá um 200 dagforeldrum. Um 1.745 stöðugildi eru hjá borginni, leik- og grunnskólakennarar, þar sem 83% starfsmanna eru konur, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.