Mikilvægt að fá forystumálin á hreint

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það hefur verið mikil ólga innan Samfylkingarinnar vegna fylgishruns og það er mikilvægt að fá forystumálin á hreint í vor til þess að flokkurinn geti mætt sterkur til leiks inn í kosningaveturinn,“ segir Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is spurð út í kröfur um að landsfundi flokksins verði flýtt og hann haldinn í vor.

Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, lýsti því yfir í gær á Facebook-síðu flokksins og í framhaldinu í fjölmiðlum að hún teldi rétt að flýta landsfundi og halda hann í maí í vor. Tilefnið er fylgi Samfylkingarinnar og vísaði Ólína í skoðanakönnun Gallups í byrjun mánaðarins þar sem flokkurinn mældist með 9,2%. Með sama áframhaldi lifði Samfylkingin ekki til haustsins að hennar mati. Gert er ráð fyrir að reglulegur landsfundur fari fram í nóvember.

Frétt mbl.is: „Samfylkingin lifir ekki til haustsins“

Sigríður Ingibjörg leggur þó áherslu á að vandræði Samfylkingarinnar snúist ekki eingöngu um forystu flokksins. Fleira sé enda tekið fyrir á landsfundi en kjör forystu. Landsfundur í vor veiti flokksmönnum tækifæri til þess að fara heildstætt yfir stöðu og stefnumál Samfylkingarinnar, kryfja þau til mergjar, laga það sem þurfi að laga og stilla saman strengi sína fyrir kosningaveturinn framundan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert