Sakaðar um að gæta ekki hreinlætis

Ekki hafa borist formlegar fyrirspurnir til Reykjavíkurborgar, Hafnarfjarðarbæjar og Akureyrarbæjar …
Ekki hafa borist formlegar fyrirspurnir til Reykjavíkurborgar, Hafnarfjarðarbæjar og Akureyrarbæjar þar sem farið er fram á að sundstaðir séu opnir fyrir annað kynið í senn. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Rax / Ragnar Axelsson

Konur sem aðhyllast íslam vilja hylja sig þegar þær sækja sundstaði eða strendur þar sem bæði kynin eru gera það af virðingu við sig og eiginmenn sína. Ekki virðist vera mikið um að konurnar noti svokallaðar sundbúrkur (e. burkini) hér á landi. Umræðan um sundklæðnað kvenna sem aðhyllast íslam hefur oft verið neikvæð í gegnum tíðina og eru þær jafnvel sakaðar um gæta ekki hreinlætis.

Þetta segir Nadia Tamimi í samtali við mbl.is. Móðir hennar er kristin og faðir hennar múslimi og hefur Nadia meðal annars haldið erindi um stöðu múslima hér á landi.

mbl.is ræddi í gær við Matthildi Bjarnadóttur, meistaranema í trúarbragðafræði, um fyrirlestur hennar Geta múslimar farið í sund? en þar kom meðal annars fram að hug­mynd­ir um ásætt­an­lega nekt inn­an íslam séu ólík­ar því sem flest­ir eiga að venj­ast á Íslandi og ekki gildi sömu regl­ur fyr­ir karla og kon­ur á þessu sviði. Í Dan­mörku hafa komið upp átök hvað varðar skóla­sund stúlkna sem aðhyllast íslam en ekki hef­ur farið mikið fyr­ir slík­um mál­um hér á landi.

Frétt mbl.is: Erfitt að vera fáklæddar í sundi

Ekki hafa borist formlegar fyrirspurnir til Reykjavíkurborgar, Hafnarfjarðarbæjar og Akureyrarbæjar þar sem farið er fram á að sundstaðir séu opnir fyrir annað kynið í senn. Í Sundhöll Hafnarfjarðar var um tíma boðið upp á svokölluð kvennakvöld tvisvar í viku en lagðist það meðal annars af vegna dræmrar aðsóknar.

Af virðingu við sjálfa sig og eiginmennina

Nadia segist ekki þekkja til múslima hér á landi sem kjósi að klæðast sundbúrkum til að hylja líkama sinn hér á landi. Hún hefur aftur á móti orðið vör við það erlendis og nefnir sem dæmi strendur við Indlandshaf þar sem slíkt er algengt.

„Mér finnst þetta allt í lagi, þær vilja bara hylja sig af virðingu við sig og sína menn. Mér finnst umræðan í tengslum við þetta hafa snúist um óhreinindi en mér finnst það bara mesta bull,“ segir Nadia og bendir á að sundbúrkurnar séu gerðar úr sama efni og önnur sundföt.

Hún segir konurnar yfirleitt fara afsíðis og þrífa sig áður en farið er í sundfötin eins og aðrir en kjósi oft klefa þar sem hægt er að loka sig af. Þá segist hún einnig skilja vel ef konur kjósi að að klæðast sundfötum líkt og sundbolum og bikiníum.

Matthildur benti í samtali sínu við mbl.is í gær á að það geti verið erfitt fyrir konur sem aðhyllast íslam að vera fáklæddar eða í sundfötum fyrir framan ókunnuga karlmenn. Nadia tekur undir þetta og segir ákvörðun kvennanna, að hylja sig í sundlaugum eða á baðströndum, byggja á því að þar séu karlmenn. 

Heldur þú að konur sem aðhyllast íslam myndu frekar nýta sér sundlaugarnar ef þær gætu valið að fara á tíma þar sem aðeins væri opið fyrir konur?

„Ég þekki enga sem fer ekki í sund hér á landi, þær eru ekki að láta neitt stoppa sig. Ég þekki heldur engar sem nota sundbúrkur hér á landi,“ segir Nadia.

Sumar kjósa að hylja hárið

Steinþór Einarsson, skrifstofustjóri íþrótta- og tómstundasviðs Reykjavíkurborgar, segir nokkuð um að sundlaugargestir, þó aðallega konur, kjósi að hylja hárið með klútum eða klæðast sundbolum sem ná niður að hnjám.

Boðið er upp á sturtur þar sem hægt er að vera afsíðis, með baðhengjum eða hurðum. Þá er einnig hægt að skipta um föt í lokuðum búningsklefa. Hann segir töluvert um að sundlaugargestir nýti sér þessa aðstöðu.

Elín Gísladóttir, forstöðukona sundlaugar Akureyrar, segir fátítt að konur komi í sundbúrkum en þó hafi verið eitthvað um það síðustu ár. „Það er bara sjálfsagt, þetta eru þeirra sundföt og ekkert athugavert við það, hingað eru allir velkomnir. Það væri gaman að sjá fleiri sem trúar sinna vegna geta ekki verið í sundbol eða bikiníi, að þau geti nýtt þessa frábæru aðstöðu að fara í sund,“ segir hún.

Aðalsteinn Hrafnkelsson, forstöðumaður sundstaða í Hafnarfirði, segir að um tíma hafi verið boðið upp á sérstök kvennakvöld í Sundhöll Hafnarfjarðar en þá var laugin aðeins opin fyrir konur tvö kvöld í viku. Þau voru lögð af fyrir nokkru síðan og var það meðal annars vegna dræmrar aðsóknar.

Hann segir ekki algengt að sundlaugargestir í Hafnarfirði klæðist sundlaugarbúrkum eða öðrum klæðnaði sem hylja meira en hefðbundnari sundföt hér á landi.

Nadia segir ákvörðun kvennanna, að hylja sig í sundlaugum eða …
Nadia segir ákvörðun kvennanna, að hylja sig í sundlaugum eða á baðströndum, byggja á því að þar séu karlmenn. Ásdís Ásgeirsdóttir
Kona í sundlaugarbúrku.
Kona í sundlaugarbúrku. Wikipedia
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka