Töldu kröfur Íslands brandara

Skjáskot

„Þetta voru átök sem minntu nokkuð á Davíð og Golíat. Breski fiskveiðiflotinn var sá stærsti í heiminum og ef við töpuðum miðunum við Ísland yrði það mikill missir fyrir breskan sjávarútveg,“ segir Tom Watson, fyrrverandi skipstjóri, í sjónvarpsþættinum Witness í breska ríkisútvarpinu BBC, en hann stundaði veiðar við Ísland á áttunda áratug síðustu aldar áður en Íslendingar unnu lokasigur í þorskastríðunum við Breta.

Watson segir veiðarnar við Ísland hafa gefið vel af sér og sjómenn getað efnast vel af þeim. Vinnan hafi þó verið erfið og þýtt langa túra fjarri ættingjum og vinum. Hann segir kröfur Íslendinga um ráð yfir 200 mílna efnahagslögsögu hafi í fyrstu verið talinn brandari af hálfu bresku sjómannanna. Íslensk varðskip hafi komið upp að bresku fiskiskipunum og tilkynnt þeim að þau væru að stunda ólöglegar veiðar. Þakkað hafi verið fyrir upplýsingarnar en síðan haldið áfram að veiða eins og ekkert hafi í skorist.

Watson segir að átökin hafi síðan harnað og Íslendingar orðið ákveðnari í kröfum sínum. Síðan hafi Íslendingar fundið upp togvíraklippurnar sem gert hafi þeim kleift að klippa veiðafæri bresku skipanna. Það hafi sett stórt strik í reikninginn. Komið hafi til ítrekaðra árekstra á milli breskra sjómanna og Landhelgisgæslunnar og deilan farið úr böndunum. Breskir sjómenn hafi alltaf vonað að bresk stjórnvöld kæmust að samkomulagi sem tryggði hagsmuni þeirra. Þess í stað hafi breskir sjómenn ekki fengið neitt.

Bresk stjórnvöld hafi lofað að sjá um hagsmuni bresku sjómannanna eftir lok þorskastríðanna en hafi ekki staðið við það. Watson telur breska ráðamenn hafa klúðrað þroskastríðunum og fullyrðir að ef breskir sjómenn hefðu fengið að taka þátt í samningaviðræðunum hefði það skilað samningi á nokkrum mínútum. Sjómennirnir hefðu verið lítilsvirtir. Watson segist ekki hafa velt þessu of mikið fyrir sér á sínum tíma. Frekar reynt að finna ný atvinnutækifæri. En þegar hann hugsi til baka sé hann bitur yfir því hvernig deilan hafi þróast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert