Dómari víki vegna fréttaflutnings

Símon Sigvaldason tók sæti Arngríms Ísberg í málinu.
Símon Sigvaldason tók sæti Arngríms Ísberg í málinu.

Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í Aurum-holding málinu, skorar á dómsformann málsins að víkja héraðsdómaranum Símonar Sigvaldasyni úr dómnum. Byggir hann áskorun sína meðal annars á því að Fréttablaðið hafi flutt fréttir af fyrirtæki eiginkonu Símonar og ummælum Símonar um að „dómarar endurspegli þjóðfélagsvitundina.” Þetta kemur fram í bókun sem lögð var fram í fyrirtöku málsins í dag.

Mbl.is hefur fjallað ítarlega um deilurnar um dómara í málinu, en fyrst fór einn verjandi fram á að meðdómarinn Arngrímur viki ekki sæti eftir að fyrri niðurstaða héraðsdóms í málinu hafði verið ógilt í Hæstarétti. Ekki var fallist á það og hefur nú Gestur skorað á dóminn að víkja Símoni úr honum.

Í bókuninni sem var skilað til dómsformanns í dag kemur fram að Jón Ásgeir telji sig af fleiri en einni ástæðu draga óhlutdrægni Símonar.

Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs.
Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs. mbl.is/G.Rúnar

Í fyrsta lagi lýsir Gestur því að draga megi óhlutdrægni Símonar í efa vegna atvika sem urðu þegar Fréttablaðið, sem er að stærstum hluta í eigu eiginkonu Jóns Ásgeirs, Ingibjargar Pálmadóttur, flutti fréttir af félaginu Rannsóknum og greiningu ehf, en eiginkona Símonar á það félag. Segir í bókuninni að Símon hafi einnig setið í stjórn þess félags. „Fréttirnar snérust um að fyrirtækið hefði notið óeðlilegs aðgangs að opinberu fé auk þess sem ekki hefði verið rétt staðið að úthlutun arðs úr félaginu,“ segir í bókuninni.

Þá fer Gestur einnig yfir það að Jón Ásgeir hafi verið með réttarstöðu sakbornings í íslensku réttarkerfi í hálft fjórtánda ár, eða frá því árið 2002. Segir hann umræðu í þjóðfélaginu hafa verið óvægna gagnvart Jóni Ásgeiri og að orð Símonar opinberlega, þar sem hann sagði „að dómarar endurspegli þjóðfélagsvitundina,“ sé ekki í samræmi við þann rétt að dómar byggi á „birtum lögum en ekki óskilgreindri þjóðfélagsvitund.“

Að lokum bendir Gestur á að Símon ásamt núverandi dómsstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur hafi kveðið upp refsidóm yfir sér í Al Thani málinu, en þar var Gesti og öðrum verjanda í málinu, Ragnari Hall, gert að greiða sekt eftir að þeir sögðu sig frá málinu.

Frétt mbl.is: Dómaramál klætt í annan búning

Frétt mbl.is: Áfram deilt um dómara í Aurum máli

Frétt mbl.is: Tekist á um innáskiptingu Símonar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert