Éljagangur er víða um suðvestanvert landið. Hálkublettir eru á Reykjanesbraut og Suðurnesjum. Það er hálka bæði á Hellisheiði og í Þrengslum, og skafrenningur.
Snjóþekja og hálkublettir eru á Hringveginum á Suðurlandi en á öðrum vegum á Suðurlandi er víða hálka. Þæfingur er á Suðurstrandavegi.
Hálka og snjóþekja er allvíða á Vesturlandi, ekki síst á Snæfellsnesi og á fjallvegum. Eins er hálka á Vestfjörðum, víðast hvar, og sums staðar skafrenningur á heiðum.
Hálka er á flestum vegum á Norðurlandi og sums staðar éljagangur.
Hálka er á flestum aðalleiðum á Austurlandi en annars víða snjóþekja, einkum á sveitavegum.
Hálka og snjóþekja er með suðausturströndinni en þungfært er á Mýrdalssandi og þæfingur á Reynisfjalli og á Sólheimasandi.
Vegna óveðurs má búast við því að í dag, fimmtudag, þurfi að grípa til lokana á vegum á Suðvesturlandi. Líkur eru á því að um og uppúr hádegi verði vegum lokað yfir Hellisheiði, um Þrengsli og á Mosfellsheiði.
Ólíklegt er að unnt verði að beina umferð um Suðurstrandarveg á meðan lokanir vara. Þá er líklegt að einnig þurfi að loka Vesturlandsvegi um Kjalarnes."