Sögusagnir um yfirtöku frjálshyggjumanna úr lausu lofti gripnar

Merki Pírata.
Merki Pírata.

Stefna Pírata er ósamræmanleg grunngildum frjálshyggjumanna og eru allar sögusagnir um yfirtöku Frjálshyggjufélagsins á Pírötum úr lausu lofti gripnar. Þetta segir Þorsteinn F. Halldórsson, formaður félagsins, í erindi sem barst mbl.is.

Um er að ræða svar vegna ummæla Birgittu Jónsdóttur, þingmanns Pírata.

Frétt mbl.is: Vill frjálshyggjumenn úr Pírötum

Í erindi sínu segir Þorsteinn m.a. að jafnvel þótt Frjálshyggjufélagið eigi stundum samleið með Pírötum, til dæmis hvað varðar aðskilnað ríkis og kirkju, þá nái hugsjón frjálshyggjumanna um óskoraðan rétt einstaklingsins til frelsis langt út fyrir einkalíf hans.

„Frjálshyggjufélagið styður frjálsan markað og er fullkominn aðskilnaður ríkis og atvinnulífs lykilhugsjón okkar. Ríkið á hvorki að vera að vasast í því við hvað fólk vinnur né skipta sér af hvernig við ráðstöfum okkar sjálfsaflafé. Í raun er eini réttlætanlegi tilgangur ríkisins að halda uppi löggæslu til að vernda borgarana gegn ofbeldi og reka dómskerfi til að skera úr ágreiningsmálum.

Í dag eru umsvif ríkisins hins vegar gríðarleg. Þegar tekið er fullt tillit til skattheimtu, viðskiptahindrana og reglugerðafargans, þá nær einstaklingurinn vart að ráða yfir nema rétt um fimmtungi af því sem hann aflar. Eina leiðin til að stöðva þessa þróun og bæta kjör almennings fæst með því að einfalda og minnka báknið og lækka skatta. Kapítalismi er þannig grunnhugsjón Frjálshyggjufélagsins.

Stefna pírata er ósamræmanleg okkar grunngildum og því eru allar sögusagnir um yfirtöku Frjálshyggjufélagsins á pírötum úr lausu loft gripnar,“ segir Þorsteinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert