Þrír dómarar við Héraðsdóm Reykjaness telja hafið yfir allan skynsamlegan vafa að maður, sem neitaði því að hafa nauðgað sautján ára gamalli stúlku, hafi gerst sekur um nauðgun. Hann sagðist aldrei hafa heyrt „hættu, nei, stopp eða eitthvað.“ Stúlkan hélt í fyrstu að þetta væri ekki raunveruleiki heldur martröð.
Maðurinn var dæmdur í lok janúar í tveggja ára fangelsi fyrir að hafa nauðgað stúlku í apríl í fyrra. Honum var jafnframt gert að greiða henni eina milljón króna í miskabætur.
Að mati dómsins er ekki minnsta ástæða til að efast um trúverðugleika hennar en maðurinn hélt því fram að ekki hafi verið um nauðgun að ræða og við skýrslutöku hjá lögreglu sagði hann að hún hafi ekkert verið að berjast á móti eða neitt og ekki sagt neitt við hann, þannig að sér hafi ekki fundist þetta vera nauðgun af því að hann hafi aldrei heyrt „hættu, nei, stopp eða eitthvað.“
Ákærði neitaði því aðspurður að hann hefði verið með getnaðarliminn í leggöngum brotaþola þegar hún hafi vaknað og sagði það ekki vera rétt því að hann hefði ekki náð honum upp. Hann hafi ekki „virkað“ fyrr en næsta kvöld en fram kom við skýrslutöku að hann hafði bæði drukkið bjór og neytt amfetamíns þetta kvöld.
Nauðgunin átti sér stað í apríl í fyrra í heimahúsi þar sem nokkur ungmenni höfðu komið saman og flest neytt áfengis. Unga stúlkan hafði kastað upp vegna ölvunar og bróðir hennar hafði komið henni fyrir í rúmi inni í herbergi svo hún gæti jafnað sig.
Unga stúlkan sofnaði en vaknaði við að það var einhver við hlið hennar í rúminu og strauk henni um magann. Hún hafi í fyrstu ekki vitað hver hafi haldið utan um hana en komist að því síðar að það var ákærði. Hann hafi farið að strjúka henni um magann, en hún hafi sagt honum að hætta. Hann hafi þá spurt hvort hún væri alveg viss og hafi hún svarað því játandi. Brotaþoli kveðst ekki muna mikið meira því að hún hafi dottið út og það næsta sem hún viti er að ákærði sé ofan á henni og sé að hrista á henni hausinn og nauðga henni.
Haft er eftir brotaþola að hún hafi í fyrstu haldið að þetta væri ekki raunveruleiki heldur martröð. Ákærði hafi ekki sagt neitt og haldið áfram. Hún hafi sagt honum að hætta og segist hafa náð að ýta sér á hliðina en hann hafi þá tosað hana til baka.
Í dómi Héraðsdóms Reykjaness kemur fram að framburður ákærða hafi ekki verið á einn veg hjá lögreglu og fyrir dómi. Dómurinn metur framburð hans ótrúverðugan en um leið framburð fórnarlambsins trúverðugan og telur hafið yfir skynsamlegan vafa að maðurinn hafi gerst sekur um að nauðga ungu stúlkunni. Enda hafi ekkert komið fram í málinu sem gat gefið ákærða tilefni til að ætla að brotaþoli væri samþykk kynmökum við hann.
Því er honum gert að sæta fangelsi í tvö ár og greiða fórnarlambinu eina milljón í miskabætur. Jafnframt er honum gert að greiða allan sakarkostnað um 1,1 milljón króna.