„Ég hef kallað eftir því að formannskjöri og landsfundi verði flýtt svo flokkurinn fái nauðsynlega viðspyrnu. Þar með yrðu forystumál flokksins útkljáð og í framhaldinu farið í málefnavinnu eins og þarf þegar ár er til alþingiskosninga.“
Þetta segir Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, í Morgunblaðinu í dag. Stjórn Samfylkingarinnar fundaði í gær og ræddi stöðu mála í flokknum, en í grasrótinni er þung krafa um breytingar vegna bágs gengis í skoðanakönnunum.
Sema Erla Serdar, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingar, telur ekki mögulegt, samkvæmt lögum flokksins, að halda reglulegan landsfund á þessu ári. Sema bendir jafnframt á að gert sé ráð fyrir að formaður sé kjörinn í allsherjarkosningu fyrir landsfund sé farið fram á það.