Málið ekki líklegt til sakfellingar

Mannfjöldi mótmælír við lögreglustöðina.
Mannfjöldi mótmælír við lögreglustöðina. mbl.is/Árni Sæberg

Niðurstaða rannsóknar í máli þar sem tveir menn voru ásakaðir um að hafa nauðgað konu í íbúð við Miklubraut var sú að ekki væru nægjanleg gögn sem gætu leitt til sakfellingar. Þetta segir Ólafur Hauksson héraðssaksóknari en embættið var með málið til rannsóknar. Greint var frá því að fallið hefði verið frá ákæru í dag.

Hann staðfestir að búið sé að senda aðilum málsins upplýsingarnar og að þeim hafi verið gerð grein fyrir niðurstöðunni.

Ólafur segir að þegar lögreglan hafi klárað rannsókn málsins hafi það verið sent til héraðssaksóknara. Þar hafi málið verið skoðað með hliðsjón af því hvort nægjanleg gögn lægju fyrir sem leitt gætu til sakfellingar. Svo hafi ekki verið í þessu máli.

Sú sem kærði málið eða réttargæslumaður hennar hefur nú einn mánuð til að kæra niðurstöðu héraðssaksóknara til ríkissaksóknara. Er það hluti af tveggja þrepa ákæruvaldskerfi sem komið var á laggirnar með stofnun embættis héraðssaksóknara um áramótin.

Ef málið verður sent áfram hefur ríkissaksóknari þrjá mánuði til að taka afstöðu um áframhald málsins.

Málið vakti mikla athygli í nóvember, en þá sagði Fréttablaðið frá því að íbúðin í Hlíðunum hefði verið búin út­búnaði til of­beld­isiðkun­ar og að árás­irn­ar hefðu verið hrotta­leg­ar.

Í kjöl­far frétt­ar blaðsins kom mik­ill fjöldi sam­an fyr­ir utan lög­reglu­stöðina á Hverf­is­götu og krafðist þess að menn­irn­ir tveir yrðu hneppt­ir í gæslu­v­arðhald. Á sam­fé­lags­miðlum voru nöfn þeirra birt, mynd­ir af þeim og barni ann­ars þeirra. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert