Snjóflóð skammt frá húsunum

Patreksfjörður.
Patreksfjörður. © Mats Wibe Lund

Snjóflóð féll úr hlíðinni fyrir ofan höfnina á Patreksfirði síðustu nótt eða snemma í morgun samkvæmt tilkynningu frá Veðurstofunni. Snjóflóðið féll niður fyrir Urðargötu, um 40 metrum vestan við húsin sem rýmd voru í gærkvöldi. Flóðið var þunnt og tungan einungis nokkrir metrar að breidd á götunni en mun breiðara í hlíðinni þar fyrir ofan segir í tilkynningunni.

„Snjóflóð hafa fallið á nokkrum stöðum á landinu síðasta hálfa sólarhringinn. Allstórt snjóflóð féll úr Innri-Kirkjubólshlíð í Skutulsfirði, á milli flugstöðvarinnar og sorpstöðvarinnar Funa, skemmdi girðingu og náði yfir veginn. Snjóflóð hafði daginn áður fallið skammt þar fyrir innan og náði að girðingu nokkru ofan vegarins. Fjögur snjóflóð féllu yfir veg á Skarðsströnd í Dalasýslu og stórt snjóflóð féll yfir þjóðveg skammt sunnan Laufáss í Eyjafirði á þekktum snjóflóðastað. Undir morgun féll snjóflóð úr lágri hlíð í Helgafelli í Mosfellsbæ, einnig á þekktum snjóflóðastað, og stöðvaðist í brekkufætinum,“ segir ennfremur.

Þá segir að fréttir hafi einnig borist af nokkrum flóðum til viðbótar sem fallið hafi niður á vegi víða á landinu, meðal annars í Hvalnesskriðum í Lóni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert