„Við erum ekki að fara í kosningabaráttu án þess að vera búin að leggja eitthvað fram um verðtrygginguna. Það bara kemur ekki til greina,“ sagði Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, í útvarpsþættinum Sprengisandi í morgun. Sagði hún miklar áhyggjur innan þingflokks framsóknarmanna af stöðu málsins. Framsóknarflokkurinn væri ekki tilbúinn að fara í kosningar án þess að tekið hefði verið á verðtryggingunni.
„Við höfum mjög miklar áhyggjur í okkar þingflokki,“ sagði Silja. Vísaði hún til þess að beðið væri eftir útfærslu frá fjármálaráðuneytinu um það með hvaða hætti verði dregið úr vægi verðtryggingarinnar eða hún afnumin í ljósi skýrslu nefndar um hana. Rúmt ár væri í næstu þingkosningar sem væri stuttur tími í stjórnmálum. Framsóknarflokkurinn væri ekki hættur við þau áform að taka á verðtryggingunni.
„Við erum ekki tilbúin að fara í kosningar aftur án þess að hafa komið með neitt fyrir kjósendur í þetta, ég get bara fullyrt það.“