Yfirsjón í tækni- og efnisskoðun Rúv varð til þess að röng útgáfa sjöunda þáttar Ófærðar var send út í gærkvöldi. Sambærileg mistök urðu einnig til þess að röng útgáfa heimildaþáttaraðarinnar Á flótta var send út.
Samkvæmt upplýsingum frá dagskrárdeild Rúv er útgáfan sem sýnd var „lítillega frábrugðin efnislega“ lokaútgáfu framleiðenda þáttanna. Unnið sé að framleiðslu þáttarins fram á síðustu stund til þess að gera hann eins og góðan og mögulegt sé og má rekja rót mistakanna að hluta til þess.
Sömu heimildir herma þó að ekki sé um að ræða meiriháttar frávik frá þeim söguþræði sem áhorfendur upplifðu í gærkvöld og dyggir aðdáendur ættu því ekki að koma af fjöllum þegar sagan heldur áfram í næstu viku.
Rétta útgáfu sjöunda þáttar Ófærðar er að finna í Sarpi Rúv auk þess að verða sýnd í kvöld kl. 23:15 og á fimmtudagskvöld kl. 23:05.
Uppfært 21:05: Skv. ábendingu er von á uppfærðri útgáfu af þættinum í Sarpi Rúv eftir sýningu á henni seinna í kvöld.
Rétta útgáfu Á flótta má svo finna hér.