Samstaða gegn Rússum mikilvæg

Frá fundinum í morgun.
Frá fundinum í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Meðal þess sem rætt var á fundi sameiginlegrar þingmannanefndar Alþingis og Evrópuþingsins í morgun var þátttaka Íslands í refsiaðgerðum gegn Rússlandi. Lögðu fulltrúar Íslands áherslu á það á fundinum, sem fram fer í tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu í Reykjavík, að mikilvægt væri að senda Rússum skýr skilaboð um samstöðu ríkjanna sem ættu aðild að aðgerðunum með því að draga úr skaða vegna gagnaðgerða Rússa.

Viðstaddir fundinn voru tveir þingmenn af Evrópuþinginu, þau Jørn Dohrmann sem er annar formaður þingmannanefndarinnar ásamt Guðlaugi Þór Þórðarsyni þingmanni Sjálfstæðisflokksins, og Catherine Stihler. Dohrmann situr á Evrópuþinginu fyrir Danska þjóðarflokkinn en Stihler fyrir breska Verkamannaflokkinn. Auk þeirra sat fundinn af hálfu Evrópusambandsins Claude Maerten, deildarstjóri hjá utanríkisþjónustu sambandsins.

Fulltrúar Evrópusambandsins tóku undir mikilvægi þess að aðildarríki refsiaðgerðanna gegn Rússlandi sýndu samstöðu gagnvart málinu og óskuðu eftir upplýsingum frá fulltrúum utanríkisráðuneytisins sem sátu fundinn um efnahagsleg áhrif gagnaðgerða Rússa gegn Íslandi. Fóru þeir Stefán Haukur Jóhannesson ráðuneytisstjóri og Högni S. Kristjánsson, skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu ráðuneytisins yfir stöðu mála.

Hvergi umræða eins og á Íslandi

Einnig var rætt um umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið í kjölfar fyrirspurnar frá Birgittu Jónsdóttur, þingmanni Pírata. Sagði hún mismunandi skilaboð berast um stöðu umsóknarinnar. Spurði hún fulltrúa sambandsins hvort hægt yrði að hefja umsóknarferlið þar sem frá hafi verið horfið ef vilji væri fyrir því. Lét Maerten nægja að ítreka að Evrópusambandið virti ákvörðun Íslands um að hætta viðræðunum.

Guðlaugur Þór sagði af þessu tilefni að á ferðum hans um Evrópu hefði hann hvergi orðið var við umræðu eins og færi fram hér á landi um Evrópusambandið. Hér á landi væri talað eins og ekki væri ljóst hvað vera í sambandinu þýddi en í öðrum Evrópuríkjum væri engin óvissa ríkjandi um það. Þetta sýndi sig síðan í ólíkum skoðanakönnunum hér á landi um afstöðuna til inngöngu í Evrópusambandsins og áframhaldandi viðræðna.

Stefán Haukur sagði stefnu íslenskra stjórnvalda skýra og vísaði í bréf Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra til Evrópusambandsins í byrjun síðasta árs. Viðræðum um inngöngu í sambandið hefði verið hætt og Ísland væri ekki lengur umsóknarríki. Það hefði ennfremur verið staðfest af Evrópusambandinu.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tók einnig til máls og lagði áherslu á að þó ekki væri vilji til þess að ganga í Evrópusambandið hér á landi væru íslensk stjórnvöld mjög áfram um að standa við skuldbindingar sínar meðal annars vegna EES-samningsins.

Guðlaugur Þór Þórðarson og Jørn Dohrmann á fundinum í morgun.
Guðlaugur Þór Þórðarson og Jørn Dohrmann á fundinum í morgun. mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert