Viðbrögð við breyttu öryggisástandi

Rússneskur kafbátur. Myndin var tekin 1994.
Rússneskur kafbátur. Myndin var tekin 1994. Ljósmynd/Wikipedia

„Það er náttúrlega þannig að það hafa engar viðræður átt sér stað milli Íslands og Bandaríkjanna um varanlega staðsetningu herafla á Íslandi. Við eigum hins vegar í stöðugum viðræðum um varnarmál og breytt öryggisástand í Evrópu hefur kallað á að hér hefur verið aukin viðvera.“

Þetta segir Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra en mbl.is sagði frá því fyrr í kvöld að bandaríski sjóherinn hefði farið fram á fjárveitingu á fjárlögum 2017 til endurbóta á flugskýli í Keflavík, þar sem til stendur að hýsa P-8 Poseidon kafbátaleitarvélar.

Frétt mbl.is: Bandaríkjaher aftur til Íslands?

Ráðherra segir að það hefði lengi legið fyrir að vélar bandaríska hersins þyrftu betri aðstöðu í Keflavík.

„En það kemur líka fram í fréttum erlendis að þeir opna á þann möguleika að vera hérna til lengri tíma síðar meir, en um það hafa ekki átt sér stað neinar viðræður,“ ítrekar Gunnar Bragi.

Hann segist líta svo á að um sé að ræða viðbrögð við breyttu öryggisástandi í heiminum með aukinni, en ekki varanlegri viðveru í Keflavík líkt og undanfarin tvö til þrjú ár.

Ráðherra segir herinn hafa aðgang að alls kyns húsakynnum í Keflavík, s.s. íbúðum fyrir hermenn. „Allt er þetta til staðar samkvæmt samningi okkar við Bandaríkjamenn og NATO,“ segir hann.

Hann segir því ekkert nýtt eða skrítið við það að vélar sjóhersins hafi notað flugskýli á vellinum. „En það þarf að breyta því fyrir þessar nýju kafbátavélar,“ segir Gunnar Bragi og vísar þar til P-8 vélanna. „Það kom í ljós þegar Bob Work, aðstoðarvarnarmálaráðherra var hér á landi fyrir nokkrum mánuðum. Þá var einmitt skoðað hvort þessi skýli dygðu til þess.“

Frétt mbl.is: Skoðaði mannvirki á öryggissvæðinu

Utanríkisráðuneytið hefur sent frá sér svohljóðandi tilkynningu vegna fregna um fyrirætlanir bandaríska sjóhersins:

Engar viðræður eiga sér stað á milli Íslands og Bandaríkjanna um varanlega staðsetningu bandarísks liðsafla á Íslandi. Hins vegar er ljóst að umhverfi öryggismála í Evrópu hefur breyst mikið á umliðnum árum og í því ljósi, eins og utanríkisráðuneytið hefur áður greint frá, hafa eðlilega átt sér stað samtöl um mögulega aukin umsvif Bandaríkjanna og annarra ríkja Atlantshafsbandalagsins á norðanverðu Atlantshafi og Íslandi í samræmi við sameiginlegar varnarskuldbindingar.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert