Vill að nefndin álykti um samstöðu

Jørn Dohrmann og Guðlaugur Þór Þórðarson á fundinum í dag.
Jørn Dohrmann og Guðlaugur Þór Þórðarson á fundinum í dag. mbl.is/Eggert

Lögð var rík áhersla á það af hálfu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, á fundi sameiginlegrar þingmannanefndar Alþingis og Evrópuþingsins í dag að nefndin áyktaði um mikilvægi samstöðu þeirra ríkja sem standa að refsiaðgerðunum gegn Rússlandi og að fundnar yrðu leiðir til þess að draga úr skaða sem gagnaðgerðir Rússa hafa valdið.

Málið var rætt ítarlega á fundinum en fram kom í máli Jørns Dohrmann, þingmanns Danska þjóðarflokksins á Evrópuþinginu sem ásamt Guðlaugi veitir nefndinni forystu, að full ástæða væri til þess að leggja áherslu á samstöðu ríkjanna og lýsti hann ennfremur yfir vilja til þess að hjálpa til við að finna nýja markaði fyrir íslenskar sjávarafurðir sem hefðu verið seldar til Rússland ef ekki væri fyrir gagnaðgerðir Rússa.

Hins vegar lýsti Dohrmann efasemdum um að fundurinn væri heppilegur vettvangur fyrir slíka ályktun þar sem einungis tveir Evrópuþingmenn væru viðstaddir hann. Lýsti hann yfir vilja til þess að kanna hvort hægt yrði að halda annan fund í nefndinni þar sem hægt yrði að taka málið fyrir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert