„Það eru engin áform um að hafa varanlegar flugsveitir á Keflavíkurflugvelli eins og staðan er í dag,“ segir Pamela Rawe, sjóliðsforingi og upplýsingafulltrúi hjá bandaríska varnarmálaráðuneytinu í samtali við mbl.is. Vangaveltur hafa verið um mögulegann aukinn viðbúnað bandaríska sjóhersins á Íslandi í kjölfar frétta um fyrirhugaðar framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli meðal annars við að breyta flugskýlum á vellinum.
Rawe segir að engar breytingar standi til á viðveru bandarískra herflugvéla hér á landi frá því sem verið hefur á undanförnum árum. Það eina sem fyrirhugað sé af hálfu bandaríska sjóhersins sé að gera nauðsynlegar breytingar á flugskýslum og annarri aðstöðu á Keflavíkurflugvelli til þess að hægt verði að þjónusta P-8A Poseidon eftirlitsflugvélar hér á landi en aðstaðan sé hönnuð fyrir P-3 Orion flugvélar sem Bandaríkjamenn séu smám saman að skipta út.
Rewe segir að P-8A eftirlitsflugvélarnar muni þannig sinna sama eftirliti og P-3 Orion vélarnar hafi gert til þessa. Þessar breytingar hér á landi séu aðeins hluti af langtímaáætlunum bandarískra hermálayfirvalda á heimsvísu sem byggist á því að P-3 flugvélarnar séu smám saman á útleið en þær voru fyrst teknar í notkun árið 1962. P-8A vélarnar voru hins vegar teknar í notkun árið 2013 en þær eru uppfærð útgáfa af Boeing 737-800ERX farþegaþotunni.