„Miðað við það sem ég les í Stars and Stripes, þaðan sem þessar fréttir virðast allar koma, þá eru Bandaríkjamenn aðeins að hugsa um að auka eftirlit með kafbátaferðum sem í fljótu bragði mjög saklaust. Hins vegar verður að segjast eins og er að sú tortryggni sem skapast þegar svona fréttir berast er mjög eðlileg og verðskulduð,“ segir Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, í samtali við mbl.is vegna frétta af varnarviðbúnaði Bandaríkjamanna á Keflavíkurflugvelli.
Helgi Hrafn segir tortryggni bæði eðlilega og verðskuldaða í ljósi þess að þegar Íslendingar hafi blandað sér í aðgerðir á vegum Bandaríkjamanna eins og Íraksstríðið á sínum tíma hafi það komið niður á þjóðinni. Fyrir vikið sé Ísland til að mynda á lista hjá hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams sem skotmark. „Þannig að það er mjög skiljanlegt og verðskuldað að fólk sé tortryggið út í möguleg aukin umsvif Bandaríkjahers hér á landi og full ástæða til þess að vera á varðbergi gagnvart þróun í þeim efnum. Hitt sé svo annað mál að yfirleitt liggja ekki allar upplýsingar fyrir í málum sem þessum enda hernaðarmál einfaldlega þess eðlis og hulin leyndarhjúp.
„En miðað við þessa frétt í Stars and Stripes þá er þetta eitt og sér, að mínu mati, ekki áhyggjuefni. Vitanlega með þeim fyrirvara að þetta sé ekki fyrirboði einhvers meira,“ segir Helgi Hrafn. „Ef þetta er það eina virðist mér þetta vera mjög saklaust og meinlaust fyrir hagsmuni Íslands. Jafnvel jákvætt fyrir hagsmuni Íslands. En menn eiga að hlusta á þessa tortryggni og taka hana alvarlega vegna þess að hún er byggð á reynslu.“