Með heilu þorpin á flakki

Öldurnar í Reynisfjöru við Dyrhólaey.
Öldurnar í Reynisfjöru við Dyrhólaey. mbl.is/RAX

Það er kalt og nokkuð stillt veður á Suðurlandinu í dag. Bjart er yfir og líkt og aðra daga streyma ferðamenn að Reynisfjöru til að virða fyrir sér fegurð íslenskrar náttúru. Öldurnar láta ekki mikið yfir sér en tóku þó eitt líf í morgun, líf karlmanns sem var á ferð með eiginkonu sinni. 

Frétt mbl.is: Banaslys í Reynisfjöru

Sjórinn virtist heldur ekki svo ógnvekjandi fallegan dag í maí árið 2007 þegar fimmta Íslandsferð 75 ára gamallar konur frá Bandaríkjunum fékk hörmulegan endi þegar hún drukknaði í fjörunni. 

Lögreglustjórinn á Suðurlandi segir að grípa þurfi til ráðstafana þegar í stað en hann nefndi í viðtali við Ríkisútvarpið í gær að hann vildi sjá mannaða öryggisgæslu í fjörunni. Hann segir lögreglu ekki hafa bolmagn til að sinna aukinni gæslu og vill ekki að björgunarsveitir taki verkefnið að sér.

Þýðir ekki að tala bara fallega

„Vissulega þarf að grípa til ráðstafana og við höfum bent á það fyrir allöngu síðan að það þarf að styrkja gæslu á öllum þessum stóru ferðamannastöðum. Ekki bara í Reynisfjöru heldur á öllum þessu stóru ferðamannastöðum.

Við getum ekki horft framhjá því lengur að við erum með óhemju magn af ferðamönnum á öllu landinu. Margir af þessum stærstu stöðum eru hér á Suðurlandinu og margir eru hættulegir ef ekki er varlega farið. Jú, það verður eitthvað að fara að gera,“ segir Sveinn Rúnar Kristjánsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi.

Hann segir að umræða um hvernig bregðast eigi við stöðu mála þurfa að fara af stað. „Eins og staðan er í dag getur lögreglan ekki tekið þetta á sig af því að við náum rétt að sinna neyðarþjónustu. Lögreglan er undirmönnuð og illa í sveit sett,“ segir Sveinn Rúnar.

Hann vill heldur ekki að björgunarsveitir sinni verkefninu. „Þær hafa allt annað hlutverk hjá okkur en að standa í gæslu á ferðamannastöðum. Það þýðir ekkert að tala bara fallega um að við þurfum að gera eitthvað heldur þurfum við að gera eitthvað. Fyrst og síðast snýst eftirlit um það að einhver þarf að borga fyrir það. Það er alþingis og stjórnmálamanna að koma þessum málum í alvöru horf,“ segir Sveinn Rúnar.

Öryggi  má ekki vera tískuorð

Hann bendir á að það þó ekki aðeins stjórnmálamanna að koma þessum málum í rétt horf með auknu fjármagni. „Heldur líka sveitarstjórna og landeigandana og þeirra sem eru að hafa hag sinn af því að fá ferðamenn til landsins. Við verðum að hugsa um öryggi líka, það má ekki bara vera tískuorð,“ segir hann.

„Við erum með svo mikið af fólki allsstaðar,“ segir Sveinn Rúnar og bætir við að á degi hverjum komi hátt í þúsund manns í Reynisfjöru, eða um það bil jafn margir og búa á Hvolsvelli eða Hellu. „Við erum með heilu þorpin á flakki og enginn sem fylgir þeim í sjálfu sér.“

Hann segir ekki endilega hægt að skella skuldinni á ferðaþjónstuna þar sem margir ferðamenn eru einir á ferð, ekki í skipulögðum ferðum með leiðsögumanni. „Langstærsti hluti ferðaþjónustunnar er með hlutina á hreinu og í góðum málum,“ segir Sveinn Rúnar að lokum.

Ekki líkleg til að senda banvænar öldur

Fimmta Íslandsferð 75 ára gamallar konur frá Bandaríkjunum fékk hörmulegan endi í maí árið 2007 þegar hún drukknaði í Reynisfjöru. Fjölskylda hennar varð vitni að slysinu en þau voru á ferð í hópi sautján Bandaríkjamanna á vegum Kynnisferða. Þegar hópurinn kom að fjörunni lét sjórinn ekki mikið yfir sér í hægum norðanandvara og virtist ekki líklegur til að senda banvænar öldur á land eins og raunin varð.

Leiðsögumaðurinn gekk með hópnum ofan í fjöru eftir að hafa varað fólkið við öldum. „Leiðsögumaðurinn stóð í fjörunni og varnaði fólki för að hellisskúta sem þarna er en heyrði þá hróp og læti. Sá hann þá konuna liggjandi eftir alda hafði skellt henni í fjöruna og hvernig aldan sogaði hana út,“ sagði Sigríður Ásta Hallgrímsdóttir, starfsmannastjóri Kynnisferða í samtali við Morgunblaðið. „Tveir menn stukku á eftir henni og náðu til lands eftir illan leik án þess að ná til konunnar.“

Enginn hefði getað bjargað henni

Tæplega fimm ára gömul stúlka var í lífshættu í Reynisfjöru í ágúst árið 2013. Mjög slæmt var í sjó­inn og öld­urn­ar sem skullu á Reyn­is­fjöru voru hrika­leg­ar. Nokkr­ir ferðamenn voru í fjör­unni að fylgj­ast með sjón­arspil­inu. Stúlkan, sem var þar með föður sín­um og syst­ur, hljóp frá pabba sín­um og niður í flæðar­málið.

Hún fór nán­ast eins neðarlega í fjör­una og hægt var þegar öld­urn­ar hörfuðu í augna­blik og þar sem hún stóð var sand­ur­inn blaut­ur eft­ir öldu­rótið. Það var bara tímaspurs­mál hvenær næsta alda skylli á fjör­unni og hremmdi stúlk­una.

Þannig lýs­ti Páll Jóns­son, lög­reglumaður og leiðsögumaður hjá Experience Ice­land, aðstæðum í Reyn­is­fjöru þegar hann var þar stadd­ur í lok ág­úst. Öld­urn­ar skella ekki reglu­lega á ströndu, eins og marg­ir halda, og þegar stúlk­an stóð í flæðar­mál­inu var líkt og hik kæmi á sjó­inn. „Ég hljóp til henn­ar og náði að rífa hana upp áður en hafið gleypti hana,“ seg­ir Páll.

Hefði hann ekki gripið til sinna ráða hefði ekki þurft að spyrja að leiks­lok­um; stúlk­an hefði far­ist því eng­inn hefði getað komið henni til bjarg­ar.

Í háskaleik í fjörunni

Fjöldi mynda og myndskeiða hafa verið birt á samfélagsmiðlum að undanförnu sem sýna ferðamenn í háskaleik í fjörunni. Ýmislegt hefur verið gert til að bæta öryggi í fjörunni síðustu ár. Þrátt fyrir betri skilti og betur afmarkað bílastæði leikur fólk sér samt sem áður í flæðarmálinu og fer sér að voða.

Ferðamenn voru í stór­hættu í Reyn­is­fjöru skammt vest­an við Vík í Mýr­dal um pásk­ana árið 2013 eins og sést á mynd­skeiði sem náðist af öldu sem geng­ur yfir nokkra ferðamenn sem höfðu hætt sér of nærri sjáv­ar­mál­inu.

Frétt mbl.is: Í hættu í briminu í Reynisfjöru



Upplýsingaskilti við Reynisfjöru.
Upplýsingaskilti við Reynisfjöru. mbl.is/Jónas Erlendsson
Stuðlaberg við Reynisfjöru í Mýrdal
Stuðlaberg við Reynisfjöru í Mýrdal Rax / Ragnar Axelsson
Í Reynisfjöru.
Í Reynisfjöru. mynd/Kjartan Pétur Sigurðsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert