Mygla hefur greinst á almennri móttökugeðdeild Landspítalans þar sem þunglyndar konur með nýfædd börn leggjast inn. Þriðjungur starfsmanna deildarinnar hefur kvartað undan einkennum sem líklegt er að stafi af myglunni. Mítill fannst einnig á deildinni.
Að sögn Maríu Einisdóttur, framkvæmdastjóra geðsviðs Landspítalans, voru sýni tekin á deildinni í desember vegna gruns um myglu og núna hefur verkfræðistofan EFLA skilað skýrslu þar sem kemur fram að mikil mygla hafi fundist í sýnunum.
„Við erum í hálfgerðu sjokki að sjá þessa skýrslu. Þetta er grafalvarlegt mál. Okkur grunaði að þetta væri slæmt en þetta er ennþá verra,“ segir María. „Ég get ekki ímyndað mér að þetta sé það sem nýfædd lungu þurfa. Þetta er mikið áhyggjuefni.“
Samkvæmt skýrslunni er mjög líklegt að mygluna sé að finna úti um alla deild en verst er hún við austurgaflinn. Um er að ræða deild 33C á Landspítalanum. Um tíu til fimmtán mæður dvelja með börn sín á deildinni að meðaltali á hverju ári.
Sautján af hátt í fimmtíu starfsmönnum deildarinnar hafa kvartað undan einkennum sem líklegt er að rekja megi til myglunnar. „Sumir eru með mjög alvarlegar öndunarfærasýkingar, lungabólgur og svo útbrot,“ greinir María frá.
Mítill fannst einnig skríðandi undir gólfdúki og á baðherbergi á deildinni. „Það er ýmiss konar óþrifnaður sem getur fylgt í raka. Annars vegar fannst hann þar sem hafði blotnað sökkull á innréttingu á baðherbergi og síðan þar sem hafði verið leki við dúk ,“ segir Aðalsteinn Pálsson, deildarstjóri fasteignadeildar Landspítalans og bætir við að til standi að loka þeim herbergjum þar sem rakaskemmdir eru staðbundnar.
Hann segir ástand deildarinnar vera eitt það versta á legudeildum Landspítalans. Lekaskemmdir hafi fundist út frá þaki, veggjum og gluggum. „Þetta er orðin gömul og slitin deild. Hún hefur verið óbreytt frá því um 1980.“
Utanhússviðgerðir eru fyrirhugaðar í vor og verða 50 milljónir króna settar í fyrsta áfanga þeirra. Að sögn Aðalsteins kostar um 130 til 140 milljónir króna að gera deildina upp að innan. Verið er að leita að fjármagni í þær viðgerðir og líklegt er að þeim verði einnig skipt upp í áfanga.
María segir að átta sinnum hafi lekið á deildinni á síðasta ári. „Húsið hefur lekið á hverjum vetri í nokkuð mörg ár. Því lengur sem raki hefur verið í húsum þeim mun líklegra er að svona myglugró nái sér á strik, eftir því sem mér skilst. Þetta hús með þessa sögu er topp kandídat fyrir myglu. Þarna er flatt þak og þakrennurnar eru inni í húsinu en ekki utan á þeim. Það er erfitt fyrir iðnaðarmenn að komast að þeim.“
Hún telur að það hefði þurft að fara í endurbætur á húsinu miklu fyrr. „Þetta er eitt af þessum húsum sem hefur ekki verið haldið almennilega við og við erum að súpa seyðið af því. Það segir sig sjálft að sjúkradeild í upprunalegri mynd sem er orðin 35 ára gömul er orðin ansi bágborin.“
Stutt er síðan ákveðið var að takmarka þjónustu barna- og unglingageðdeildar Landspítalans (BUGL) vegna einkenna sem starfsfólk fann fyrir og talið var að gætu stafað af myglusveppi eða raka í húsnæðinu.
Frétt mbl.is: Skerðing á þjónustu BUGL vegna myglu