Rannsókn lögreglunnar á því hver var að verki þegar listaverk sem hékk á vegg í Odda, byggingu Háskóla Íslands, var eyðilagt föstudagskvöldið 29. janúar sl., hefur engan árangur borið. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni hefur hún engar vísbendingar til að vinna eftir. Ástæðan er sú að myndavélar á svæðinu voru ekki virkar þegar verknaðurinn fór fram.
Listaverkið sem um ræðir heitir „Can I Be With You“ og er eftir Hallgrím Helgason. Skornir voru hlutar úr verkinu og hefur gerandinn tekið þá með sér að öllum líkindum.
„Það vill svo til að þetta er eina verk safnsins sem hægt er að endurgera. Við munum örugglega kaupa annað verk og sýna það með stolti,“ segir Auður Ava Ólafsdóttir, forstöðumaður Listasafns Háskóla Íslands. Verkið er gert með svokallaðri blekspraututækni og prentað á striga.
Auður segist vongóð um að verkið verði endurgert. „Þetta snýst samt ekki um það því þetta er mjög „agressívur“ verknaður og er alveg hrikalegt.“
Auður Ava segir að nú sé verið að fara yfir málið með yfirstjórn Háskólans. Í því samhengi bendir hún á að ekki séu lengur sýnd verk eftir listmálarann Þorvald Skúlason í opinberu rými sem var gert fyrir margt löngu.