Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, hefur verið boðið sæti í stjórn LBI hf, gamla Landsbankans. Segir hann að stærri hluthafar hafi nefnt þetta við sig og að eins og staðan sé núna hyggist hann setjast í stjórnina. Enn eigi þó eftir að kjósa formlega um málið, en aðalfundur verður líklega haldinn í kringum mánaðarmótin mars-apríl. Þetta staðfestir Kolbeinn í samtali við mbl.is, en fyrst var sagt frá málinu í Fréttablaðinu í morgun.
Kolbeinn hefur reynslu úr fjármálaheiminum, en áður en hann varð framkvæmdastjóri SFS starfaði hann sem lögfræðingur á fyrirtækjasviði hjá Logos og þar áður var hann lögfræðingur hjá slitabúi Kaupþings og þar áður á lögfræðisviði bankans áður en hann hrundi.
Aðspurður hvort stjórnarseta í LBI muni hafa einhver áhrif á núverandi störf hans segir hann svo ekki vera. Um sé að ræða stjórnarsetu í ofanálag við núverandi störf.