Þarf að hafa brennandi áhuga

Klara og Thelma Ívarsdætur.
Klara og Thelma Ívarsdætur. Eggert Jóhannesson

„Pabbi og afi æfðu báðir fótbolta á malarvelli heima í Neskaupstað þegar þeir voru yngri, þannig að fótboltagenin eru í blóðinu. En Neskaupstaður er mun þekktari fyrir blakið en fótboltann, sérstaklega kvennablakið. Við prófuðum báðar að æfa blak áður en við snerum okkur alfarið að fótboltanum,“ segja fótboltasysturnar Klara og Telma Ívarsdætur sem báðar æfa fótbolta í meistaradeild, Klara sem varnarsinnaður miðjumaður hjá ÍR en Telma sem markmaður hjá Breiðabliki.

Klara er tvítug en Telma 16 ára og þær eru eðli málsins samkvæmt fluttar suður til að geta stundað æfingar. En þær fæddust og ólust upp austur í Neskaupstað, og eru hreinræktaðir Austfirðingar. „Mamma er frá Seyðisfirði en pabbi frá Neskaupstað.“

Klara flaug reyndar fyrst úr hreiðrinu 18 ára þegar hún flutti norður á Akureyri til að komast í betri aðstæður til fótboltaæfinga.

„Heima í Neskaupstað þurftum við að fara til Reyðarfjarðar á æfingar yfir veturinn því þar er íþróttahöll. Við fórum fimm sinnum í viku á æfingar og það tók klukkutíma hvora leið. Auk þess var skarðið oft ófært.“

Alltaf uppgefnar á kvöldin

Þær segja íþróttalífið í Neskaupstað mjög líflegt og Telma byrjaði fjögurra ára í fótbolta en Klara þegar hún var tíu ára, sem þeim finnst mjög seint.

„En við byrjuðum báðar á skíðum tveggja ára,“ segja þær og hlæja.

„Ég var svo ofvirkur krakki að ég vildi prófa allt sem Klara var að gera. Við vorum báðar í öllum íþróttum sem voru í boði, í blaki, sundi, fimleikum og skíðum, en fótboltinn stóð upp úr og við vorum báðar á samningi hjá Fjarðabyggð áður en við komum suður.“

Þær segja þetta vissulega hafa útheimt mikla orku og tíma og þær muni eftir að hafa sem börn alltaf verið uppgefnar á kvöldin og sofnaðar klukkan níu.

„En þetta er svona enn í Neskaupstað, flestir yngri krakkarnir eru í fótbolta, blaki og jafnvel líka á skíðum og að æfa á hljóðfæri. Svo höfum við heyrt að körfubolti sé nýjasta æðið heima.“

Systurnar Klara og Telma.
Systurnar Klara og Telma. David Mar Sigurdsson

Vinnur líka sem dyravörður

Þær systur sinna ekki aðeins boltanum heldur líka náminu. Klara er stúdent en hún tók bæði náttúrufræðibraut og hárgreiðslu í framhaldsskólanum í Neskaupstað.

„Ég útskrifaðist af náttúrufræðibraut á þremur árum og þegar ég var svo heppin að komast á samning hjá Eplinu hárstofu í Reykjavík, þá ákvað ég að drífa í að klára hárgreiðsluna og núna er ég að vinna mig upp í sveinsprófið.“

Telma er á fyrsta ári í Menntaskólanum í Kópavogi og þar leigja þær saman litla íbúð. Meistaraflokksæfingar í fótboltanum eru sex sinnum í viku hjá þeim systrum.

„Þar fyrir utan er leikur hverja helgi, landsliðsæfingar einu sinni í mánuði og svo reynum við líka að æfa aukalega. Við förum svona átta sinnum í viku á æfingar. Við komum yfirleitt heim um klukkan níu á kvöldin og þá eigum við eftir að elda. Við erum oft að borða kvöldmat um hálfellefu og þá eigum við eftir að fara í sturtu og Telma á eftir að læra. Það þarf að hafa brennandi áhuga á fótbolta til að standa í þessu, þetta er eins og full vinna. En okkur finnst þetta svakalega skemmtilegt,“ segir Klara sem vinnur líka sem dyravörður á American bar um helgar. Telma vinnur alla sunnudaga sem aðstoðarþjálfari sjöunda flokks kvenna við markmannsþjálfun.

Klara segist sérlega ánægð með þjálfara síns liðs, Guðmund Guðjónsson.

„Hann byrjaði með liðið um áramótin og hefur rifið það upp, við unnum KR um daginn. Hann er svo áhugasamur að hann nær að peppa alla upp með sér og hann hefur fengið nýja í liðið.“

Hringir í mömmu til að fá leiðbeiningar

Telma er nokkuð ung til að flytja langt frá heimahögum og fjölskyldu, enda finnst henni það erfitt.

„Mamma og pabbi hafa gert allt hingað til sem ég þarf að gera núna sjálf, þvo þvottinn, elda og þrífa. Ég hef hringt í mömmu til að fá leiðbeiningar í hvert einasta skipti sem ég elda,“ segir Telma og Klara bætir við að Telma eldi alltaf fyrir mjög marga. „Hún eldaði grjónagraut um daginn sem hefði dugað fyrir alla íbúa götunnar.“

Telma segir það vera mikla breytingu að vera allt í einu byrjuð í fullorðinslífi og hafa ekki fjölskylduna sína hjá sér.

„Við erum einu börn foreldra okkar svo þetta eru líka viðbrigði fyrir þau. Það tekur níu klukkutíma að keyra úr bænum til Neskaupstaðar svo við erum ekkert að skjótast.“

Stefna á fótbolta í Bandaríkjunum og nám í lýtalækningum

Þær segja muninn á því að búa í Reykjavík eða í Neskaupstað helst vera þann að allt sé einfaldara fyrir austan og þægilegra. „Þar er hægt að ganga milli allra staða og maður þekkir alla. En Reykjavík hefur aðra kosti, okkur finnst þægilegt að geta farið í matarbúð á öllum tímum sólarhringsins, sérstaklega fyrir okkur sem komum alltaf seint heim á kvöldin. Og það er líka hentugt fyrir okkur að geta stundum hoppað á skyndibitastaði. Svo höfum við kynnst mörgu fólki frá því við fluttum suður og það stækkar lífið okkar og tengslanetið.“

Systrunum semur ágætlega í sambúðinni, miðað við að þær slógust og rifust þónokkuð þegar þær voru litlar.

Þær horfa björtum augum til framtíðar og Telma stefnir að því að klára menntaskólann og fara eftir það til Bandaríkjanna í skóla. „Því þar er hægt að fá styrk í háskóla ef maður er góður í fótbolta.“

Klara ætlar að klára hárgreiðsluna á næsta ári og eftir það er aldrei að vita hvað hún tekur sér fyrir hendur.

„Mig hefur langað frá því ég var sex ára til að verða lýtalæknir, kannski skelli ég mér bara í læknisfræði. En mig langar margt annað líka, ég ætla til dæmis að læra förðunarfræði á þessu ári og mig langar til að ferðast. Það er allt opið hjá mér með framtíðarplönin.“

Klara 10 ára og Telma 7 ára sigurglaðar með bikar …
Klara 10 ára og Telma 7 ára sigurglaðar með bikar á milli sín á Pæjumóti á Siglufirði. mbl.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert