Hanna Birna Kristjánsdóttir formaður utanríkismálanefndar segir nefndarmenn ekki hafa verið upplýsta um þau áform Bandaríkjahers að breyta flugskýli sínu á Keflavíkurflugvelli áður en fjallað var um þau í fjölmiðlum. Nefndin lauk fundi sínum um málið nú fyrir stundu en fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í utanríkismálanefnd, Steinunn Þóra Árnadóttir, óskaði eftir fundinum.
„Ég held að menn hafi fengið svör við spurningum sínum og um leið tækifæri til að viðra skoðanir sínar,“ segir Hanna Birna í samtali við mbl.is. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra kom á fund nefndarinnar og hún segir hann hafa svarað þeim spurningum sem brunnu á nefndarmönnum.
„Hann fór yfir málið eins og það blasti við honum og nefndin fékk tækifæri til að fara nákvæmlega yfir það. Svo ræddum við varnarsamninginn og stöðuna almennt og um þetta myndaðist mjög fín umræða,“ segir Hanna Birna. Hún bætir við að ríkin hafi ekki rætt varanlega viðveru Bandaríkjahers hér á landi.
„Það hefur engin umræða, hvorki óformleg né formleg, átt sér stað á milli ríkjanna um varanlega viðveru hér. Þessi litla uppbygging, sem á enn eftir að samþykkja, er í fullu samræmi við varnarsamninginn frá 1951 og rúmast vel innan samkomulagsins sem gert var árið 2006.“
Þá segir hún að áform um breytingu flugskýlis á vellinum þurfi ekki að þýða aukin umsvif hersins á landinu.
„Við höfum auðvitað öll heyrt af því að Bandaríkjamenn vilja treysta stöðu sína á þessu svæði en þetta tengist því ekki beint. Vélarnar sem eru að taka við eftirlitinu eru hærri en vélarnar sem fyrir eru og því þarf að hækka skýlið og treysta undirstöðuna. Í hernaðarlegu tilliti er þetta ekkert flóknara en það.“
Frétt mbl.is: Verja 2,7 milljörðum á Íslandi
Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna hefur sagt að sér lítist ekki á áformin og að þau veki áhyggjur af stöðu alþjóðamála. Hanna Birna segir ólíka afstöðu innan þingsins endurspeglast innan nefndarinnar.
„Menn hafa mjög ólíkar skoðanir hvað varðar afstöðuna til NATO og varnarsamstarfsins við Bandaríkin. Það liggur alveg ljóst fyrir og Vinstri grænir eru mjög einarðir og sannir í afstöðu sinni, sem kemur fram í öllu sem nefndin fjallar um er þetta varðar.“
Hún segir afstöðu Sjálfstæðisflokksins sömuleiðis vera skýra í þessum efnum.
„Við viljum standa vörð um aðild okkar að NATO og við viljum áframhaldandi farsælt varnarsamstarf við Bandaríkin því það nýtist hagsmunum Íslands. Við þurfum að hafa augun opin fyrir því að staðan í álfunni er að breytast og vera í góðu samstarfi við nágrannaþjóðir okkar um hvernig bregðast skuli við þeim breytingum.“