Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir mikilvægt að kjósendur hafi skýran valkost í næstu kosningum um að mynda stjórn til vinstri. Hún ætlar að varpa þeirri hugmynd fram á flokksráðsfundi um helgina hvort leitað verði eftir samstarfsyfirlýsingu stjórnarandstöðuflokkanna um að þeir vinni saman eftir kosningar. Þetta kemur fram í frétt Fréttatímans í gær.
„Þetta er hugmynd að einskonar kosningabandalagi, en að mínu viti hafa flokkar ekki áður sameinast um að vinna saman eftir kosningar að tilteknum málum,“ segir Katrín. „Málin sem ég tel að ætti að setja á oddinn er uppbygging velferðarkerfisins, jöfnuður og umhverfisvæn atvinnustefna.“