Hundsa líka viðvaranir við Gullfoss

Á myndinni má sjá að keðjur eru fyrir stígnum og …
Á myndinni má sjá að keðjur eru fyrir stígnum og varúðarskilti. Það virðist lítil áhrif hafa á ferðamenn sem fara fram hjá lokuninni og ganga að fossinum. Mynd/Magnús Kristjánsson

Mikill fjöldi ferðamanna fór neðri stíginn sem liggur alla leið að Gullfossi í dag, þrátt fyrir að keðjur séu fyrir leiðinni og ferðamenn séu varaðir við hættum framundan. Á mynd sem Magnús Kristjánsson frá Hvollsvelli deilir á Facebook síðunni Bakland ferðaþjónustunnar sjást nokkrir tugir ferðamanna ganga á stígnum þótt varúðarskilti séu mjög greinileg.

Nokkur umræða hefur verið undanfarið um varasama viðkomustaði ferðamanna eftir að banaslys varð í Reynisfjöru þar sem ferðamaður drukknaði eftir að alda hrifsaði hann með sér.

Keðjan er sett fyrir gönguleiðina seinni part árs þegar varasamt fer að vera að ganga þar vegna hálku. Skiptar skoðanir virðast meðal fólks í hópnum um hvað skuldi til bragðs taka til að koma í veg fyrir möguleg óhöpp á staðnum. Á meðan sumir eru á þeirri skoðun að loka þurfi leiðinni betur eru aðrir sem benda á að þar sem þetta er einn af helstu ferðamannastöðum landsins eigi að passa upp á að leiðin sé fær allt árið.

Í fyrra sagði Umhverfisstofnun frá því að mikil mildi hafi verið að ekki yrði stórslys þegar fólk hundsaði lokunina og gekk út á ís­hengju sem hall­ar nokkra metra fram af kletta­brúnni sjálfri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert